138. löggjafarþing — 100. fundur,  25. mars 2010.

sanngirnisbætur.

494. mál
[11:08]
Horfa

forsætisráðherra (Jóhanna Sigurðardóttir) (Sf):

Hæstv. forseti. Ég mæli fyrir frumvarpi til laga um sanngirnisbætur fyrir misgjörðir á heimilum og stofnunum sem heyra undir lög nr. 26/2007. Frumvarp þetta á sér nokkuð langa sögu. Aðdragandinn hefur verið lengri en ég hefði viljað og margir eru orðnir mjög langeygir eftir að niðurstaða fáist í það mál hvernig ríkisvaldið hyggist bæta þeim sem urðu fyrir illri meðferð eða ofbeldi á Breiðavíkurheimilinu eða öðrum sambærilegum stofnunum skaðann sem þeir urðu fyrir. Það er einlæg von mín að frumvarp þetta verði mikilvægur þáttur í að gera upp þennan kafla í sögu okkar og ná sátt milli samfélagsins og þeirra sem enn eiga um sárt að binda.

Áður en ég vík að efni frumvarpsins vil ég fara nokkrum orðum um forsögu málsins. Í kjölfar umfjöllunar fjölmiðla um slæman aðbúnað á Breiðavíkurheimilinu ákvað þáverandi ríkisstjórn undir forustu Geirs H. Haardes að láta fara fram rannsókn á því hvernig rekstri vistheimilisins var háttað á árabilinu 1950–1980 og eftir atvikum hliðstæðra stofnana og sérskóla þar sem börn dvöldu. Jafnframt var ákveðið að veita þeim sem þess óska sérfræðilega aðstoð við að takast á við minningar um þungbæra reynslu af dvöl á slíkum heimilum. Í kjölfarið lagði þáverandi forsætisráðherra fram frumvarp á Alþingi um slíka rannsókn sem varð að lögum nr. 26/2007. Sett var á fót nefnd undir formennsku Róberts R. Spanós prófessors sem hefur unnið skipulega að því að kanna tiltekin heimili og stofnanir sem falla undir lögin.

Nefndin hefur nú lokið við könnun á starfsemi vistheimilisins Breiðavíkur, Heyrnleysingjaskólans, vistheimilisins Kumbaravogs og skólaheimilisins Bjargs. Skýrslur um starfsemi þriggja stofnana við viðbótar verða afhentar forsætisráðherra hinn 30. júní 2010, þ.e. vistheimilisins Reykjahlíðar, vistheimilisins Silungapolls og heimavistarskólans Jaðars. Loks verður skilað skýrslu um Upptökuheimili ríkisins og Unglingaheimili ríkisins hinn 15. apríl 2011.

Í fyrirliggjandi skýrslum er farið mjög rækilega í saumana á starfsemi viðkomandi heimilis eða stofnunar og ályktanir dregnar um hvort telja megi að börn sem þar voru vistuð hafi orðið fyrir illri meðferð eða ofbeldi af hálfu starfsmanna eða annarra vistmanna. Of langt mál væri að rekja niðurstöðurnar, en vissulega er mjög misjafnt hvernig ástandinu var háttað.

Eftir að skýrsla um Breiðavíkurheimilið kom út fól þáverandi ríkisstjórn Viðari Má Matthíassyni prófessor að útfæra í frumvarpinu bótafyrirkomulag. Það frumvarp var síðan kynnt Breiðavíkursamtökunum á fundi í ágúst 2008. Undirtektir voru ekki góðar, m.a. vegna fjárhæðar bóta, en þær gátu samkvæmt því frumvarpi hæstar orðið rúmar 2 millj. kr., þ.e. 2,6 millj. kr. á núvirði. Þá var gerð alvarleg athugasemd við aðferðafræðina við mat á miska og varð ekki frekara framhald á málinu um sinn.

Ég ákvað síðan vorið 2009 að taka málið upp að nýju. Í svari við fyrirspurn hv. þm. Helga Hjörvars á Alþingi 12. mars 2009 bar ég fram afsökunarbeiðni fyrir hönd íslenskra stjórnvalda og íslensku þjóðarinnar til handa fyrrverandi vistmönnum á Breiðavíkurheimilinu og fjölskyldum þeirra vegna þeirrar ómannúðlegu meðferðar sem þeir voru látnir sæta. Á þeim tíma höfðu ekki komið út skýrslur um önnur heimili en ég tók samt fram að afsökunarbeiðnin næði til allra þeirra sem hefðu sem börn verið vistaðir á stofnunum eða heimilum fyrir tilstuðlan opinberra aðila hér á landi og sætt þar illri meðferð eða ofbeldi. Nú þarf að fylgja málinu eftir með bótagreiðslum til að sættir náist að fullu.

Eftir viðræður milli ráðuneytisins og fulltrúa Breiðavíkursamtakanna um bótafyrirkomulag var ákveðið að setja á fót starfshóp við að útfæra frumvarp. Vil ég nota tækifærið og þakka Breiðavíkursamtökunum og öllum þeim einstaklingum sem hafa sett sig í samband við ráðuneytið í vetur til að leggja orð í belg varðandi undirbúning frumvarpsins fyrir framlagið.

Ljóst er að margir gerðu sér vonir um hærri bætur en hér er kveðið á um, en á hinn bóginn tel ég að með frumvarpinu teygjum við okkur verulega langt miðað við dómaframkvæmd í sambærilegum málum og að sæmileg sátt sé um þessa niðurstöðu.

Vík ég nú nánar að efni þess frumvarps sem hér liggur fyrir.

Samkvæmt því eiga fyrrverandi vistmenn á heimilum sem falla undir lög nr. 26/2007 bótarétt ef tiltekin skilyrði eru uppfyllt. Liggja þarf fyrir skýrsla nefndar samkvæmt lögum nr. 26/2007 um viðkomandi heimili eða stofnun. Áður hef ég talið upp hvaða heimili eða stofnanir það eru sem búið er að rannsaka eða til stendur að rannsaka. Sýslumaður sem valinn verður til þess af dómsmálaráðherra þarf að hafa gefið út innköllun vegna krafna. Viðkomandi einstaklingur þarf að hafa beðið varanlegan skaða af illri meðferð eða ofbeldi sem hann varð fyrir. Hugtakið varanlegur skaði er skilið vítt þannig að það nái til félagslegra afleiðinga eins og missis tækifæra. Þá er hér lagt til að hámarksfjárhæð bóta verði 6 millj. kr. en greiðslur verði í áföngum fari bætur yfir 2 millj. kr.

Varðandi fjárhæð er m.a. litið til dómaframkvæmda um miskabætur í sambærilegum málum, en einnig hinna sérstöku aðstæðna þar sem samfélagið brást þeim sem síst skyldi og að langan tíma hefur tekið fyrir þá að ná fram viðurkenningu og leiðréttingu mála sinna. Við ákvörðun bótafjárhæðar á samkvæmt frumvarpinu að líta til alvarleika, illrar meðferðar eða ofbeldis sem og neikvæðra afleiðinga. Bætur verða skattfrjálsar, undanþegnar fjárnámi og munu ekki koma til frádráttar öðrum greiðslum úr opinberum sjóðum.

Málsmeðferð er í tveimur þrepum samkvæmt frumvarpinu. Dómsmála- og mannréttindaráðherra sem fara mun með framkvæmd laganna mun fela tilteknum sýslumanni að fara yfir lýstar kröfur og gera viðkomandi sáttaboð telji hann líkur á að bótaskilyrði séu uppfyllt. Lögð er áhersla á hraða og einfalda málsmeðferð af hálfu sýslumanns.

Uni fyrrverandi vistmaður ekki sáttaboði eða hafi kröfu hans verið synjað getur hann snúið sér til sérstakrar úrskurðarnefndar sem komið verður á laggirnar. Þar mun fara fram ítarleg könnun á aðstæðum viðkomandi einstaklings og honum gefinn kostur á að gefa munnlega skýrslu. Loks munu einstaklingar geta leitað til dómstóla verði þeir ósáttir við niðurstöðu úrskurðarnefndar.

Vegna þess að ljóst er að hefðbundin sönnun er torveld þegar svo langt er um liðið er slakað á sönnunarkröfum samkvæmt frumvarpinu. Sýslumanni er gert að bjóða fram sættir telji hann líkur á að bótaskilyrði séu uppfyllt. Sömuleiðis ber úrskurðarnefnd að líta til þess að nægilegt sé í því ljósi að bótaskilyrði séu uppfyllt. Þar skiptir máli hvort frásögn viðkomandi sé trúverðug og að hún samræmist því sem vitað er um aðstæður á viðkomandi stofnun eða heimili, einkum á grundvelli skýrslu nefndar samkvæmt lögum nr. 26/2007. Skýrsla nefndar samkvæmt lögum nr. 26/2007 mun því vega allþungt við mat á frásögnum einstaklinga sem gera bótakröfur, en svigrúm verður samt sem áður til að koma fram með nýjar upplýsingar.

Sérstakur tengiliður vegna vistheimila skal koma upplýsingum um bótaúrræði með virkum hætti á framfæri við þá sem kunna að eiga bótarétt, aðstoða við kröfulýsingar og leiðbeina einstaklingum um hvernig þeir geta sem best nýtt sér ýmsa opinbera þjónustu sem er í boði, svo sem varðandi menntun og endurhæfingu. Erfitt er að áætla kostnað fyrir ríkið af bótagreiðslum, m.a. vegna þess að rannsókn á viðkomandi heimilum og stofnunum er ekki enn lokið.

Í kostnaðarumsögn fjármálaráðuneytisins er tekið það dæmi að ef 100 manns eiga rétt á bótum og hljóta meðalbætur verður kostnaður ríkisins 300 millj. kr. auk kostnaðar af starfi úrskurðarnefndar. Rétt er að árétta að talan í frumvarpinu kveður á um hámarksbætur, en búast má við að bætur sem boðnar verða fram spanni allan skalann, frá t.d. 500.000 kr. upp í 6 millj. kr. Þeir sem verst hafa orðið úti og bera mestan skaða falla þá í efsta flokk.

Það verður verkefni sýslumanns og úrskurðarnefndar að raða mönnum af sanngirni niður í bótaflokka. Einnig verður heimild fyrir ráðherra til að útfæra slíkt í reglum ef þurfa þykir.

Í þeim tilfellum þar sem sveitarfélag rak vistheimili er gert ráð fyrir því í frumvarpinu að samið verði um skiptingu kostnaðar af bótagreiðslum ef á reynir. Er ekki við öðru að búast en að viðkomandi sveitarfélög muni taka vel í sanngjarna málaleitan ríkisins að þessu leyti. Fyrrverandi vistmenn geta hins vegar eftir sem áður og óháð slíkum samningum sótt rétt á grundvelli laganna. Haft var samráð við Samband íslenskra sveitarfélaga um orðalag viðkomandi ákvæðis í frumvarpinu.

Við gerð frumvarpsins var haft náið samráð við Breiðavíkursamtökin en einnig önnur samtök þar sem fyrrverandi vistmenn eru félagar, þ.e. Félag heyrnarlausra. Tekið hefur verið tillit til margra athugasemda sem bárust, m.a. að því er varðar erfðarétt eftirlifandi barna og maka, þætti sem hafa áhrif á bótafjárhæðir, félagslegar afleiðingar, atriði sem gerðu vist sérlega þungbæra, eins og tímalengd og ungur aldur.

Virðulegi forseti. Eins og ég hef rakið eru viðbrögð stjórnvalda við upplýsingum um óforsvaranlega meðferð á börnum í fortíðinni margþætt. Í fyrsta lagi hefur verið unnið skipulega að því að rannsaka hvað gerðist í raun. Í öðru lagi hefur viðkomandi einstaklingum verið boðin sálfræðileg aðstoð. Í þriðja lagi hef ég sem forsætisráðherra borið fram afsökunarbeiðni fyrir hönd stjórnvalda og þjóðarinnar allrar. Í fjórða lagi er lagt til að greiddar verði sanngirnisbætur til þeirra sem um sárt eiga að binda og eftirlifandi barna þeirra. Í fimmta lagi er gert ráð fyrir að settur verði á fót tengiliður vegna vistheimila sem m.a. muni aðstoða viðkomandi við að sækja sér opinbera þjónustu, t.d. á sviði endurmenntunar og endurhæfingar.

Það er von mín að með samþykkt þessa frumvarps verði skapaðar forsendur til að ná sáttum milli samfélagsins og þeirra einstaklinga sem í hlut eiga. Ljóst er að fleiri hópar en þeir sem falla undir lög nr. 26/2007 telja sig eiga tilkall til þess að farið verði ofan í kjölinn á þeirra málum. Forsætisráðuneytið er nú með til athugunar erindi frá Þroskahjálp þar sem farið er fram á sambærilega rannsókn á högum barna með þroskahömlun fyrr á árum sem vistuð voru á opinberum stofnunum.

Virðulegi forseti. Að svo mæltu legg ég til að frumvarpinu verði vísað til hv. allsherjarnefndar og 2. umr.