138. löggjafarþing — 100. fundur,  25. mars 2010.

sanngirnisbætur.

494. mál
[11:26]
Horfa

Sigríður Ingibjörg Ingadóttir (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég kem hér upp fyrst og fremst til þess að þakka forsætisráðherra fyrir mjög gott starf í þessu mjög svo alvarlega máli. Ég þakka henni kærlega fyrir að hafa leitt það til lykta í fullkominni sátt við þá sem eru hlutaðeigandi í þessu máli.

Þegar ríkisvaldið tekur sér það vald að taka í sína umsjón eða hefur á sínum vegum börn eða einstaklinga sem hluta af því að stuðla að velferð þeirra er mjög hættulegt ef það vald fær að þrífast án eftirlits. Þetta frumvarp er dæmi um mjög alvarlega afleiðingu af slíku.

Mig langar því að spyrja hæstv. forsætisráðherra að því hvernig gengur með vinnu sem er á vettvangi ríkisstjórnarinnar um að búa til öflugri eftirlitstæki með þeim velferðarstofnunum sem við erum með hér í samfélaginu þannig að með skýrum hætti sé greint á milli framkvæmdar þjónustunnar og eftirlits með henni. Ég held að um leið og við tölum um fortíðina og hvernig við viljum reyna að koma til móts við fólk sem á um sárt að binda, séum við öll meðvituð um að í samfélagi dagsins í dag kunna að vera börn og einstaklingar sem eru misrétti beitt á vettvangi stofnana og alls kyns úrræða sem við að setjum lög og reglur um hér á Alþingi til að vernda og gefa einstaklingum skjól, en erum kannski að setja þau í skelfilegar aðstæður.

Ég vil því spyrja hæstv. forsætisráðherra, frú forseti, hvort við megum vænta frumvarps um slíkt fljótlega.