138. löggjafarþing — 103. fundur,  12. apr. 2010.

skil á skýrslu rannsóknarnefndar Alþingis.

[15:49]
Horfa

Birgitta Jónsdóttir (Hr):

Frú forseti. Kæra þjóð. Undanfarin ár hafa verið þjóðinni þungbær. Þeirrar skýrslu sem nú lítur dagsljósið hefur verið beðið með kvíða og eftirvæntingu. Þær upplýsingar sem koma fram í dag eru áfellisdómur fyrir þingið og stjórnsýslu landsins. Tengslin á milli viðskiptalífs og þingheims eru svo þéttofin að skömm er að. Það kemur því miður fram í skýrslunni að enginn vill axla ábyrgð, fólk bendir hvert á annað og virðist fyrirmunað að sjá þátt sinn í hrunadansinum sem hefur leitt mikla og óbærilega ógæfu yfir þjóðina. Það hlýtur að vera þeim fjölmörgu þingmönnum sem sjá nöfn sín samofin skýrslunni hvatning til að axla ábyrgð.

Nú er sú stund runnin upp þar sem við fáum að sjá hverjir í samfélagi okkar eru mikilmenni og hverjir eru lítilmenni. Mikilmenni axla ábyrgð, viðurkenna mistök sín og stíga til hliðar. Lítilmenni með rofna siðferðiskennd láta sem ekkert hafi í skorist og horfast undan ábyrgð sinni, benda jafnvel á aðra. Órofa tengsl á milli viðskiptaheims og þingheims verður að rjúfa. Í gær sat ég á fundi með forustu fjórflokksins þar sem ákveðið var að halda áfram að þiggja peninga frá viðskiptalífinu inn í flokkana. Það skiptir meira að segja engu máli þó að við vitum hvað fyrirtækin heita því að þau eru svo miklir snillingar í að búa til spagettí, spagettí sem eru skúffufyrirtæki eftir skúffufyrirtæki eftir skúffufyrirtæki, eins og við höfum séð. Einn einstaklingur getur auðveldlega búið til tuttugu fyrirtæki sem eru grafin inni í einhverjum lauk og þar af leiðandi veitt flokkunum miklu meiri peninga en maður gæti haldið. Slíkt fólk mun án efa halda áfram að hafa ítök eða halda áfram að bera fé á flokkana.

Ég þarf vart að taka það fram að við í Hreyfingunni viljum ekki láta nafn okkar á frumvarp sem viðheldur gamla kerfinu þótt aðeins skárra sé. Hér dugar ekki kattarþvottur. Hér verður að fara fram alvöruuppstokkun. Hér varð hrun og það gengur ekki að byggja framtíð Íslands úr sömu fúaspýtunum og hrundu. Við þurfum almennilega uppstokkun í stjórnsýslunni allri. Það er ljóst að fundarform það sem viðgengst á æðstu stigum er nákvæmlega það sama og fyrir hrun, ekki eru haldnar neinar fundargerðir á fundum forustumanna, á því verður að gera bragarbót. En nú er tími uppgjörsins runninn upp. Til að við getum fyrirgefið og fundið einhverja ástæðu til að byggja upp það sem hrundi, til að við getum fundið hjá okkur hvatningu til að fórna einhverju þá er ljóst að þeir sem bera siðferðislega og beina ábyrgð verða að gera svo vel að horfast í augu við veruleikann og axla ábyrgð sína, ekki eftir ár heldur núna.

Það eru ekki margir sem koma að þessu hruni sem gerendur sem hafa sýnt merki um iðrun. Það eru ekki margir sem hafa af sjálfsdáðum sýnt það hugrekki sem til þarf til að viðurkenna misgerðir sínar. Núna er tími ykkar kominn. Verið menn, ekki mýs. Okkar sameiginlega verkefni er að nýta þær upplýsingar sem koma fram í þessari skýrslu til að tryggja að hér verði smíðuð lög til að koma í veg fyrir að svona stórkostleg vanhæfni og voðaverk geti átt sér stað að nýju. En lög eru ekki nóg. Samfélagið mun ekki gróa um heilt ef allir sem ábyrgir eru halda áfram í hollinn skollinn. Verið menn, ekki mýs. Axlið ábyrgð.

Þingið er enn veikburða gagnvart framkvæmdarvaldinu. Það er okkar þingmanna að endurheimta þau völd sem þinginu réttilega ber að hafa. En þó svo að þingmenn hafi gjarnan talað um að það sé mikilvægt þá vill svo til að viljinn nær ekki lengra en að vera aðeins í orði. Útrásarvíkingarnir svokölluðu sjá enga bresti í siðferði sínu og ljóst er að réttarríkið, sem gjarnan er talað um, er ekki smíðað til að koma réttlæti fram til fullnustu gagnvart þeim sem fremja landráð eða líta svo á að þeir séu vegna ríkidæmis og valda yfir réttarríkið hafnir. Nú hlýtur það að vera svo að allar eigur þessara einstaklinga verði frystar nú þegar og fyrirtækin tekin af þeim í stað þess að afskrifa skuldir þeirra undir því yfirskini að þau séu of stór til að rúlla. Þeir sem ryksuguðu bankana innan frá þurfa greinilega aðstoð við að skila ránsfengnum og það eiga að vera skýr skilaboð frá þingheimi að fela framkvæmdarvaldinu að endurheimta ránsfenginn, ef þeir skila honum ekki sjálfviljugir. Ég skora á útrásarvíkingana að sýna að þeir séu menn en ekki mýs og að þeir axli ábyrgð og skili ránsfengnum. En það eruð þið, þjóðin, sem verðið að senda skýr skilaboð um að hér axli fólk ábyrgð á gerðum sínum.

Ég ætla að leyfa mér að nota stórt orð í dag. Í mínum huga hafa verið framin landráð hér á landi. Við stöndum frammi fyrir gríðarlegri vá, eins og t.d. þeirri að Alþjóðagjaldeyrissjóðurinn sýslar með ríkissjóð, vegna þess að allt sem við treystum á brást okkur. Blekkingin, hvort sem hún var meðvituð eður ei, var svo mögnuð að raddir þótt rómmiklar væru sem reyndu að vara við voru skjótt kæfðar með skrækum rómi Gróu á Leiti. Förum að kalla hlutina réttum nöfnum. Enn hef ég enga iðrun heyrt, enn hef ég ekkert séð sem gæti kæft þá miklu reiði sem ég finn brenna innra með mér vegna þess óréttlætis sem þjóðin hefur verið beitt. Ef það á að ríkja sátt hér er ekkert sem gæti verið réttlátara en að leiðrétta lán almennings, færa þau til baka til mars 2008 en þá var ljóst samkvæmt skýrslunni að þáverandi ríkisstjórn vissi nákvæmlega hvert stefndi. En hún kaus að halda áfram blekkingunni, hún kaus að halda frekar uppi ímyndinni en sannleikanum og nú búum við við þær hryllilegu afleiðingar sem ímyndin ofar sannleikanum býr til.

Ég vissi ekki við hverju var að búast í þessari skýrslu en mér sýnist á öllu að ekki sé um neinn hvítþvott eða kattarþvott að ræða, þó að ég hefði gjarnan viljað sjá meiri ábyrgð færða á hendur embættismönnum en ljóst er að ábyrgð þeirra er mikil í þessari sorgarsögu.

Ég vil nota tækifærið og þakka rannsóknarnefndinni fyrir störf hennar og vona að það sem ætlast er til með niðurstöðu skýrslunnar skili sér í bestu mögulegu löggjöf sem hægt er að smíða til að fyrirbyggja annað hrun. En það er ekki nóg. Við þurfum að finna viljann, þorið og heiðarleikann til að taka á þeim miklu meinbugum sem fyrirfinnast í samfélagi okkar með galopin augun og krefjast þess að sanngirni sé höfð að leiðarljósi og að sama réttlætið gangi yfir alla.