138. löggjafarþing — 105. fundur,  14. apr. 2010.

rannsókn á aðdraganda og orsökum falls íslensku bankanna 2008 og tengdra atburða, skýrsla nefndar skv. lögum nr. 142/2008.

[13:09]
Horfa

Pétur H. Blöndal (S):

Frú forseti. Við ræðum skýrslu rannsóknarnefndar Alþingis, afskaplega merkilegt plagg sem hefur að geyma mjög mikið af upplýsingum. Þótt ég hafi ekki lesið nema pínulítið brot af öllu þessu magni sýnist mér og er farinn að trúa því að þetta sé mjög góð skýrsla, hún sé áhugaverð, hún sé áhugaverð til aflestrar og hún sé beitt. Þessi skýrsla er ekki til málamynda, eins og margir óttuðust. Þetta er mjög beitt skýrsla og hún hlífir ekki. En við þurfum að nota þessa skýrslu. Í fyrsta lagi þarf að nota hana til að sækja þá til saka sem brotið hafa lög, mjög mikilvægt, og það þarf að gerast hratt. Þetta má ekki dragast of lengi. Síðan þurfa menn að sjá hvar þeir gerðu mistök og þeir sem gerðu mistök þurfa að gangast við því eða verja sig og biðjast afsökunar þótt þeir hafi ekki brotið lög. Svo þurfa allir Íslendingar að læra af þessari skýrslu, læra hvernig við þurfum að breyta reglum og lögum þannig að þetta komi ekki fyrir aftur.

En það er meira, frú forseti. Þetta eru líka mjög mikilsverð gögn og skýrsla fyrir allan umheiminn, gífurlegur fróðleikur, undirliggjandi gögn eru mjög verðmæt vegna þess að á Íslandi gerðist það sem hrjáir nú allan heiminn. Það er nefnilega þannig. Segja má að mikil undiralda sé í heiminum, ill undiralda, og hún brotnaði á Íslandi. Þess vegna eru þessi gögn mjög verðmæt fyrir alþjóðasamfélagið. Ég vona að það muni uppgötva hversu mikil verðmæti liggja í þessari skýrslu vegna þess að um allan heim er í gangi ákveðin þöggun, ekki bara hér, þöggun um vandamál banka og fjármálakerfa.

Okkar ábyrgð er mikil, við erum með þrískiptingu valdsins; dómsvaldið, framkvæmdarvaldið og löggjafarvaldið, og allir þessir aðilar þurfa að horfa í eigin barm. Ég ætla að horfa á Alþingi þar sem ég er þátttakandi og ég ætla að biðja þjóðina afsökunar á óvandaðri lagasetningu hér á Alþingi og ég ætla að nefna dæmi um það.

Ég ætla að byrja á því að nefna ræðu sem ég hélt 30. október 2008, þ.e. þrem vikum eftir hrun. Þá segi ég, með leyfi frú forseta, að „það sem kannski olli mesta vandanum var krosseignarhald, áhættutaka banka og ríkissjóðs, fyrirtækja og einstaklinga. Áhættugleðin var höfð í öndvegi. Gamlar dyggðir eins og ráðdeild og sparsemi, öryggi og lítil áhætta voru sem sagt gleymdar“. Síðan áfram: „Ég ætla ekki að skorast undan ábyrgð. Ég sem þátttakandi í að semja þessi lög sem hafa brugðist ber vissulega ábyrgð á þessari stöðu. Ég ber líka ábyrgð á því að hafa ekki minnt nægilega mikið á þessar gömlu dyggðir og ekki staðið nógu ákveðið gegn því sem ég sá vera afleiðingar af gagnkvæmu eignarhaldi þannig að ég skorast ekki undan ábyrgð, alls ekki.“ Þetta sagði ég. Síðan segi ég stuttu seinna í andsvari: „Ég hygg að þegar öll kurl verða komin til grafar og rykið hefur sest sjái menn betur þau mistök sem gerð hafa verið.“ Og nú er sá tími kominn, frú forseti. Rykið hefur sest og ég minnti á að ég hélt fund sem formaður efnahags- og skattanefndar um gagnkvæm eignartengsl í fyrirtækjum og félögum, með fulltrúum Fjármálaeftirlitsins, Samtökum fjárfesta, Kauphöll Íslands og Indriða H. Þorlákssyni sem þá var ríkisskattstjóri, þann 1. mars 2005. Sem sagt, vel þrem árum fyrir hrun. En því miður áttaði ég mig ekki á því hversu mikil hætta var fólgin í þessu og það eru mín mistök.

Ég ætla að fara í gegnum ákveðið dæmi, sem eru lög nr. 35/1997, afskaplega ómerkileg, frú forseti. Í 8. gr. segir, tvær línur: „Ákvæði 1.–2. málsliðar eiga þó ekki við um kaup starfsmanna félagsins eða tengds félags á hlutum eða kaup á hlutum fyrir þá.“

Þarna var opnað fyrir krana sem olli því að Íslendingar fóru að tala um milljarða í staðinn fyrir milljónir og þúsund milljarða í staðinn fyrir þúsund milljónir. Um þessa grein stendur: „Hið nýja ákvæði er sett með hliðsjón af 2. mgr. 23. gr. 2. félagsréttartilskipunar“ — þ.e. Evrópusambandsins. Þannig var nú það. Síðan mælir hæstv. viðskiptaráðherra Finnur Ingólfsson fyrir þessu frumvarpi og nefnir það að þetta sé að kröfu Eftirlitsstofnunar EFTA.

Um þetta mál var engin umræða. Ráðherrann hélt þarna hálfrar síðu ræðu og enginn tók til máls. Frumvarpinu var vísað til nefndar, nefndin skilaði áliti og það voru sjö línur, sagt að gestir hefðu komið o.s.frv. og smáathugasemdir um allt aðra grein. Undir þetta nefndarálit rituðu hv. þm. Ágúst Einarsson, Valgerður Sverrisdóttir, Steingrímur J. Sigfússon, Pétur H. Blöndal, Sólveig Pétursdóttir, Einar Oddur Kristjánsson og Þóra Sverrisdóttir. Það er á þessari undirskrift sem ég ætla að biðjast afsökunar, frú forseti, vegna þess að þetta var ekki unnið í nefndinni vegna þess að það kom frá EFTA. Síðan heldur framsögumaðurinn ræðu. Hún er jafnstutt og ekkert er rætt um þetta.

En hvað var að gerast þarna, frú forseti? Það var verið að opna heimild til þess að hægt sé að lána starfsmönnum til kaupa á hlutum í hlutabréfum, þ.e. peningarnir fóru í hring og ég ætla að undirstrika það: Það er stóra hættan. Það munaði ekkert um það hvort starfsmaður fékk 100 milljónir, 1.000 milljónir eða 2.000 milljónir, það breytti engu. Og það sem meira var, eiginfjárstaða bankans óx vegna þess að lánin taldi hann til eignar, en hlutabréfin teljast ekki til skuldar í hlutafélögum.

Frú forseti. Í Fréttablaðinu í gær kemur fram að enginn gekkst við ábyrgð. Þar er haft eftir Páli Hreinssyni, formanni rannsóknarnefndarinnar, á blaðamannafundi:

„Það gekkst enginn þeirra við ábyrgð“, spurður um þá stjórnendur sem komu fyrir nefndina. Í allt gáfu 147 manns skýrslu. Það gekkst enginn við ábyrgð. Það hrynur heilt kerfi, heilt þjóðfélag hrynur, og það er bara engum að kenna og það er ekkert að gerast. Það er enginn ákærður eða neitt. Mér finnst mjög mikilvægt að menn séu vakandi yfir því hvað er að gerast. Það er þetta hringstreymi fjár sem gerist með krosseignarhaldi, raðeignarhaldi og lánum fyrir kaupum á hlutabréfum sem geta verið mjög löng keðja og það er einmitt vandinn við þetta. Ég færði rök fyrir því í frumvarpi sem var dreift fyrir tveim vikum, í fylgiskjali I, að það er veila í hlutabréfaforminu sjálfu. Hlutabréfaformið, sem er svo flott til að takmarka áhættu einstaklinga í hlutafélögum, bregst þegar hlutafélög fara að kaupa í hlutafélögum eða stofna hlutafélög, að maður tali ekki um þegar þau stofna langa keðju. Ég nefni dæmi um hvernig hægt er að búa til risastóra keðju þar sem ekkert fjármagn er inni en hún sýnist hafa eigið fé og að vera óháð og þess háttar. Ég skora á hv. þingmenn að lesa þetta fylgirit I og fara í gegnum þau dæmi sem þar eru.

Ég las siðferðiskafla skýrslunnar eða byrjaði á því, frú forseti, og er nú ekki langt kominn. Þar er fjallað um siðferði og það er mjög gott. Það reyndar gleymast tveir stórir þættir á ábyrgð. Íslensku bankarnir fengu nefnilega matið AAA, kallað „triple A“ á ensku, sem er besta mat sem nokkur banki getur fengið. Hvernig í ósköpunum stóð á þessu? Þetta mat gilti þangað til vorsins 2007, þá voru íslensku bankarnir með langbesta mat í heiminum. Hvaða ábyrgð bera þessir aðilar? Ég spyr enn fremur: Hvað voru kjánarnir að hugsa sem lánuðu kjánunum 12.000 milljónir, 40 milljónir á hvern Íslending, tvöfalt allar eignir Íslendinga? Ég vil segja að þessir aðilar báru líka ábyrgð. Því miður kemst ég ekki lengra, frú forseti, ég ætlaði að tala um haghafa og hluthafa o.s.frv. en ég kemst ekki lengra að sinni og bið forseta um að setja mig aftur á mælendaskrá.