138. löggjafarþing — 105. fundur,  14. apr. 2010.

rannsókn á aðdraganda og orsökum falls íslensku bankanna 2008 og tengdra atburða, skýrsla nefndar skv. lögum nr. 142/2008.

[13:28]
Horfa

Ólöf Nordal (S):

Frú forseti. Um miðjan febrúar 2008 birtist grein í Viðskiptablaðinu undir yfirskriftinni „Rógur um íslenska markaðinn“. Þar er gagnrýndur sá tónn sem á þeim tíma var í erlendum fjölmiðlum gagnvart íslensku bönkunum. Þar segir m.a., með leyfi forseta:

„Öldurótið hefur einnig verið mikið á fjármálamörkuðum um allan heim. Íslenski markaðurinn hefur ekki farið varhluta af því. Undanfarið hafa neikvæðar væntingar einkennt markaðinn, það hefur verið spenna á lánamarkaði, aðgengi að fjármagni hefur versnað til muna og tryggingarálag íslensku bankanna hefur hækkað gríðarlega. En í ofanálag hafa bankarnir þurft að sæta því sem nærri má kalla róg um starfsemi sína. Tökum dæmi af Sunday Times á dögunum. Þar eru breskir sparifjáreigendur varaðir við því að leggja háar fjárhæðir á netsparireikninga Landsbankans og Kaupþings. Auðvitað hafa svona fréttir neikvæð áhrif á gengi fyrirtækja. Með þessu er ekki verið að kvarta undan réttmætri gagnrýni.“

Þegar þetta var skrifað voru 236 dagar þangað til bankarnir komust í þrot með skelfilegum afleiðingum. Allt fram á þennan dag höfum við staðið í óstjórnlegu stríði vegna afleiðinga netreikninga Landsbanka Íslands í Bretlandi og Hollandi. Áhrifin af áfalli bankanna hefur reynst íslensku þjóðarbúi gríðarlegt og þessi grein sem ég vitnaði til í Viðskiptablaðinu er dæmi um þá umræðu sem var í þjóðfélaginu á þessum tíma. Það var grunleysi um raunverulega stöðu bankanna, ófullnægjandi upplýsingar og almenn vissa fyrir því að allt væri með felldu í fjármálakerfinu. Umræður í stjórnkerfinu, fjölmiðlum og kaffistofum einkenndust af trú á því að allt færi vel. Höfundur þessarar greinar sem ég vitnaði til er ég sjálf og ég ætla að segja það alveg eins og er að það fór nokkuð um mig að lesa hana núna á umliðnum dögum vegna þess að ég hef í kjölfar rannsóknarskýrslunnar, auk þess að kynna mér yfirborð hennar rétt aðeins vegna þess að tímans vegna hefur ekki verið tækifæri til að lesa hana gaumgæfilega, ákveðið að skoða í leiðinni þær umræður sem höfðu verið á árunum 2007 og 2008 og jafnvel fyrr. Ég taldi ágætt að byrja á sjálfri mér og þess vegna las ég þessa grein.

Skýrslan sem nú liggur fyrir er auðvitað umfangsmikið verk og hana þarf að rýna og hana þurfum við að taka alvarlega. Af henni þurfum við að læra og við þurfum líka að skilja það sem í henni stendur. Við þurfum að skilja þá atburði sem áttu sér stað innan bankanna sem ég hygg að mörgum okkur hafi þótt mun ískyggilegri en við sjálf hugðum í aðdraganda skýrslunnar. Við þurfum líka að skilja hvernig íslenskt samfélag er vaxið og við þurfum að átta okkur á því af hverju þetta gerðist og draga af því lærdóm og við þurfum líka að gera okkur grein fyrir að því að því miður hefur ekkert endilega svo óskaplega margt gerst eftir hrunið þrátt fyrir allt. Skýrslan varpar nefnilega ljósi á veikleika fámenns samfélags þar sem nálægðin er svo mikil að hún getur jafnvel sannfært menn enn betur um að allt sé í betra lagi en annars staðar, þar sem orð eru tekin trúanleg þegar gögn vantar, þar sem kunningjasamfélag og vinátta getur haft bein áhrif á ákvarðanir manna. En hún varpar líka ljósi á átök manna í milli og þau áhrif sem slík átök geta haft á skoðanir manna sem geta þess vegna myndast á vettvangi heilu stofnananna eða fyrirtækjanna eða hvað þá heldur það er. Þetta er dálítið einkenni á íslensku samfélagi sem hefur verið um langa langa hríð og margt af þessu hefur okkur þótt það besta á Íslandi og hvað við erum fá en kannski hefur þarna, við þá atburði sem þarna urðu, birst fyrir okkur nokkuð sem er hin hliðin á þeim peningi.

En ekki síst varpar skýrslan ljósi á það ótrúlega ætlunarverk íslensku fjármálastofnananna að ætla sér að kenna erlendum fjármálamörkuðum, sem margir hverjir eru mörg hundruð ára gamlir, hvernig fara skuli að og á tímabili virtist það ganga ótrúlega vel á erlendri grund að sýna fram á þessa snilli. Við getum tekið dæmi af enska fjármálakerfinu sem er mörg hundruð ára gamalt og þar hafa tíðkast mjög öguð vinnubrögð. Ég er ekki frá því, og nú vil ég taka það fram að umræða af þessu tagi núna getur ekki verið annað en nokkuð á yfirborðinu þegar eftir er að rýna efni skýrslunnar, en það er a.m.k. alveg ljóst að sá agi sem þekkist á slíkum þróuðum mörkuðum var ekki fyrir hendi hér og á tímabili þótti það vera merki um þrótt íslenska kerfisins að það væri svo fljótt að bregðast við, það væri svo dínamískt, og þess vegna væru menn að ná þessum mikla árangri. En með sama hætti reyndist það verða það sem að lokum felldi íslensku bankana og sendi reikninginn hingað heim.

Alþingi Íslendinga hefur auðvitað, eins og fram kom hjá hv. þm. Pétri Blöndal, lagasetningarvaldið og hafði auðvitað lagasetningarvaldið á þessum tíma og samþykkti þau lög sem þarna er um að tefla. Ég hef verið nokkuð hugsi yfir því, ekki bara út af þessari skýrslu heldur einnig vegna þeirra atburða sem hér hafa verið á undangengnu ári, deilur vegna Icesave-mála og ýmissa slíkra hluta, að Alþingi verður auðvitað sjálft að fara að viðurkenna og taka sér það vald sem það hefur, það vægi sem það hefur í þrískiptingu ríkisvaldsins verða alþingismenn að gera sér grein fyrir og virða. Við þurfum að gera það sjálf. Við þurfum að átta okkur á að það erum við sem setjum þá umgjörð sem framkvæmdarvaldinu er ætlað að starfa eftir og það er líka okkar að fylgjast með því og hafa á því sjálfstæðar skoðanir og gera breytingar ef við teljum að sú umgjörð sé ekki fullnægjandi.

Í áranna rás, og e.t.v. er þetta mjög gamalt, hefur það verið svo að Alþingi hefur kannski verið um of á hliðarlínunni þegar til þessara hluta er horft og ég hygg að það sé mjög dýrmætt fyrir Alþingi núna að skoða stöðu sína, bæði gagnvart framkvæmdarvaldinu og eins gagnvart því þjóðfélagskerfi sem hér er uppi og grípa þá til viðeigandi ráðstafana þegar á þarf að halda. Ég get tekið dæmi um Evrópusambandsaðildarferlið í fyrrasumar. Þá var ákveðið af hálfu utanríkismálanefndar að Alþingi skyldi hafa mikið um það að segja hvernig því máli öllu yndi fram. Það er skrifað í nefndarálit meiri hluta utanríkismálanefndar að Alþingi hafi miklu hlutverki að gegna þegar kemur að aðildarviðræðunum og að fylgjast með því. Spurning mín núna er sú: Höfum við alþingismenn verið að velta því sérstaklega fyrir okkur núna hvað stendur í því nefndaráliti og hvað við ætluðumst til að yrði gert þegar það nefndarálit var samþykkt af þeim meiri hluta sem það gerði? Ég held að í því efni t.d. hafi það skipt verulegu máli fyrir marga þá þingmenn sem studdu aðildarviðræðurnar að það var skrifað í nefndarálitið að Alþingi skyldi hafa eitthvað um málið að segja, en það þýðir líka að þeir hinir sömu alþingismenn og aðrir verða auðvitað að taka sér það vald sem þar var samþykkt og þar held ég að liggi nokkuð vandi Alþingis, ég held að hann liggi dálítið þar. Mér fyndist mjög athyglisvert, ef við alþingismenn gætum reynt að lesa þessa skýrslu dálítið með þeim augum, hvaða lærdóm við getum dregið af þessu eða ætlum við bara að lesa skýrsluna og segja: Já, ég er nú kannski á því að þetta hafi ekki mikið breyst — og gera síðan ekkert meira í málinu? Ég held að það muni ekki verða nokkuð sem við ættum að sætta okkur við við þær aðstæður sem hér eru.

Ég býst við að margir þættir muni síðan verða ræddir í framhaldi af útkomu þessarar skýrslu. Við skulum gera okkur grein fyrir því að þetta er aðeins einn liður í þessu stóra máli, það eru rannsóknir sem nú eiga sér stað á þætti forsvarsmanna bankanna og það mun ábyggilega taka langan tíma að leysa úr. En ég legg áherslu á að Alþingi þarf sjálft að huga að því hvaða stöðu það hefur og hvað það getur gert til að efla hlutina.