138. löggjafarþing — 105. fundur,  14. apr. 2010.

rannsókn á aðdraganda og orsökum falls íslensku bankanna 2008 og tengdra atburða, skýrsla nefndar skv. lögum nr. 142/2008.

[14:03]
Horfa

Ögmundur Jónasson (Vg) (andsvar):

Hæstv. forseti. Nei, takk, ekki annan sjúss. Nú erum við að fara inn á nýjar brautir og þau rök sem áðan voru nefnd til sögunnar um að það sé gott fyrir lítið hagkerfi eins og okkar að hafa traustan þjóðarbanka er nokkuð sem við eigum að íhuga en fara ekki aftur út í þetta fen.

Það er stefna okkar í Vinstri hreyfingunni – grænu framboði að opna þessi kerfi eins og hægt er og ég nefndi þingmál sem við höfum flutt í þá veru á undanförnum árum. Við gerum það sem í okkar valdi stendur til að opna þarna alla glugga. Viðskiptanefnd Alþingis hefur haft slík mál til umfjöllunar og ég nefni viðleitni formanns þeirrar nefndar, hv. þm. Lilju Mósesdóttur, sem hefur haft sig mjög í frammi í þessa veru með tillögusmíð og hefur kallað bankana fyrir okkur. Hið sama er að gerast í efnahagsnefnd þingsins. Þar hefur verið ágæt og breið samstaða þar sem hv. þm. Pétur H. Blöndal hefur einnig komið að málum. Þetta er sameiginlegt verkefni sem ég hygg að við deilum öll, við viljum opna þetta kerfi, opna á upplýsingar, en það er forsenda þess að við getum tekið skynsamlegar ákvarðanir að við vitum hvað þar er að gerast.