138. löggjafarþing — 105. fundur,  14. apr. 2010.

rannsókn á aðdraganda og orsökum falls íslensku bankanna 2008 og tengdra atburða, skýrsla nefndar skv. lögum nr. 142/2008.

[15:38]
Horfa

Birkir Jón Jónsson (F) (andsvar):

Frú forseti. Þetta var athyglisverð ræða og kom úr hörðustu átt þegar við lítum til þess að margir Vinstri grænir, sem hafa lýst því yfir í ræðu og riti að þeir séu andvígir aðild að Evrópusambandinu, sögðu já við því að sækja um aðild. Ég held að það sé þó skárra að við í Framsóknarflokknum, sama hvaða skoðun við höfum, höfum farið eftir hugsjónum okkar og staðið við sannfæringu okkar og það er skylda alþingismanna að gera það.

Í tilfelli Vinstri grænna liggur það svo augljóslega fyrir að á þeim bænum voru menn að greiða atkvæði gegn eigin sannfæringu. Það eru þessi leiðtogastjórnmál sem þeir á hátíðisdögum tala um að yfirgefa. En staðreyndin er sú að þau vinnubrögð viðgangast enn á þeim bænum og það er alveg rétt sem hæstv. ráðherra benti á að nýr Framsóknarflokkur hefur þessi gildi í heiðri og það eiga alþingismenn að gera. Það á ekki að múlbinda menn eins og var því miður gert við stóran hluta af þingflokki (Forseti hringir.) Vinstri grænna í þessu máli.

Við framsóknarmenn förum eftir sannfæringu okkar og það mun ekkert (Forseti hringir.) stöðva mig í þeim efnum. Svo þakka ég hlýleg orð í garð flokksins er snerta Íbúðalánasjóð. (Forseti hringir.) Það þarf ekki að velkjast í vafa um hver stefna flokksins er í þeim efnum og hefur aldrei þurft.