138. löggjafarþing — 106. fundur,  15. apr. 2010.

bréf ráðherra til forstjóra Sjúkratrygginga.

[10:48]
Horfa

Guðlaugur Þór Þórðarson (S):

Virðulegi forseti. Þetta var söguleg stund. Ég hygg að þetta sé í fyrsta skipti sem hæstv. ráðherra hefur reynt að koma sjálfri sér úr ræðustól þingsins.

Alvara málsins er þessi: Hér er ekki um neinn misskilning að ræða. Ríkisendurskoðun sagði mjög skýrt: Ég misskil ekki neitt. Forstöðumenn stofnana hafa fram til þessa, án þess að biðja viðkomandi ráðherra um leyfi, sótt sér ráðgjöf til Ríkisendurskoðunar og það hafa þótt vera góð vinnubrögð. Þeir gera það vegna þess að þeir vilja vanda sig. Ef ég skil hæstv. ráðherra rétt er hæstv. ráðherra að segja að það verklag verði tekið upp í þessari ríkisstjórn að það megi enginn forstöðumaður tala við Ríkisendurskoðun nema tala fyrst við sinn ráðherra. Það er það sem þetta mál snýst um og ef þeir voga sér að gera það eiga þeir á hættu að verða áminntir. (Forseti hringir.)

Virðulegi forseti. Ég hvet þingmenn til að átta sig á alvöru þessa máls.