138. löggjafarþing — 106. fundur,  15. apr. 2010.

rannsókn á aðdraganda og orsökum falls íslensku bankanna 2008 og tengdra atburða, skýrsla nefndar skv. lögum nr. 142/2008.

[12:45]
Horfa

heilbrigðisráðherra (Álfheiður Ingadóttir) (Vg):

Herra forseti. Ég tek undir þakkir þingmanna fyrir þessa skýrslu sem við erum að ræða þriðja daginn í röð. Ég vil þakka fyrir hversu ítarleg hún er, ég vil þakka fyrir hversu beinskeytt hún er og ég vil segja það að ég er mjög sátt við efnistökin. Ég er sátt við aðferðafræðina og ég er sátt við framsetninguna í skýrslunni og allt skiptir þetta miklu máli.

Sannarlega dregur þessi skýrsla upp hryllingsmynd af því ástandi sem hér varð til og leiddi til hruns bankanna og heils efnahagskerfis og afleiðingar þess brenna nú á heimilum í landinu, 10–12 þúsund manns atvinnulausir og skuldabyrði fólks með ung börn sú erfiðasta.

Menn hafa haft á orði að það sé ekki margt nýtt í skýrslunni, þeir hafi svo sem vitað þetta allt saman, en ég verð að segja að ég hef fylgst talsvert vel með á undanförnum missirum og það kemur mér margt á óvart í þessari skýrslu, ekki síst sá einbeitti brotavilji sem þar kemur fram, viðhorfið sem kemur fram í yfirheyrslum og yfirlýsingum hjá aðalleikendum á þessu sviði. Það ótrúlega flækjustig í viðskiptalífinu sem þarna er rakið kemur mér líka verulega á óvart og mér er til efs að þessir aðalleikendur sem þóttust „eiga“ þessa peninga hafi nokkru sinni vitað hvar þeir lágu á hverjum tíma, enda var þetta froða, við vitum það í dag. En svo komu auðvitað líka á óvart þessar gríðarlega miklu fjárhæðir í froðunni.

Skýrslan er mikill áfellisdómur yfir stjórnsýslunni. Hún er mikill áfellisdómur yfir ráðandi stjórnmálastefnu, stjórnmálaforingjum, stjórnmálaflokkum, ríkisstjórnum, Stjórnarráðinu, stjórnsýslunni í heild. Það mætti margt segja um ábyrgð embættismanna og ráðherraábyrgð og það er nauðsynlegt að fara í gagngera endurskoðun á öllu regluverki og lögum og venjum í þeim efnum, eins og hæstv. forsætisráðherra hefur þegar bent á að er komið í gang, endurskoðun á Stjórnarráðinu og í stjórnsýslunni.

Skýrslan vekur upp spurningar um ábyrgðarleysi fleiri en embættismanna og ráðherra. Hún vekur einnig upp spurningar um hver er ábyrgð manna sem taka sæti í opinberum nefndum eins og einkavæðingarnefnd. Hún vekur líka spurningu um það hver er skylda og ábyrgð þeirra sem taka sæti í stjórnum hlutafélaga. En hún vekur líka spurningar um ábyrgð fjölmiðla og ekki síst forseta Íslands. Ég verð að segja, herra forseti, að mér ofbuðu viðbrögð eins aðalleikara og klappstýru í útrásinni, sem er forseti Íslands, við skýrslunni í fjölmiðlum í gær og ég harma þau. Ég hefði haldið að búast mætti við öðrum viðbrögðum frá þeim bæ, ekki síst í ljósi þess sem forseti Íslands sagði í áramótaávarpi sínu 1. janúar 2008 þar sem mátti kenna nokkra iðrun yfir aðkomu hans og embættisins að útrásinni. Það er ljóst að það er á fleiri vígstöðvum en í stjórnmálaflokkum sem menn þykjast ekki bera ábyrgð og það er miður.

Meginviðfangsefni skýrslunnar eins og hér hefur komið fram, herra forseti, er að fara yfir orsakir og aðdraganda hrunsins og eðli máls samkvæmt fjallar skýrslan mest um þá atburði sem gerðust á árinu 2007 og fram til hrunsins 6. október 2008. Engu að síður hafði nefndin í 2. mgr. 1. gr. laga nr. 142/2008 heimild til þess að fara fram yfir hrun en í þeirri grein segir að nefndin geti, eftir því sem hún telur nauðsynlegt, látið rannsókn sína taka til atburða eftir gildistöku neyðarlaganna, nr. 125/2008, en þau tóku gildi 7. október 2008, og sneiðist nú um tíma minn, herra forseti.

Mig langaði til að ræða aðeins um peningamarkaðssjóðina og það er ekki í fyrsta sinn sem þá ber á góma í þinginu. Um þá er í löngu máli fjallað í þessari skýrslu. Á einum 110 síðum er fjallað um peningamarkaðssjóðina og aðra verðbréfasjóði sem voru í „eigu“, segi ég aftur, þessara manna. Sú sem hér stendur hefur lagt fram í tvígang fyrirspurnir á Alþingi til hæstv. þáverandi fjármálaráðherra og hæstv. þáverandi viðskiptaráðherra um aðdraganda þess hvernig að útgreiðslu úr peningamarkaðssjóðunum var staðið og enn fremur um samsetningu sjóðanna og hvernig sú ákvörðun var tekin að greiða öllum jafnt úr þeim og enginn greinarmunur gerður á fagfjárfestum annars vegar og lífeyrissjóðum og öllum almenningi hins vegar. Því að mestur fjöldinn var almenningur sem átti inni í þessum sjóðum, átti tiltölulega lágar fjárhæðir en öll stjórnarandstaðan lagði inn beiðni um skýrslu 18. desember 2008, tveim, þrem mánuðum eftir hrunið. Þá óskuðum við m.a. eftir upplýsingum um það hvernig samsetning sjóðanna var, hversu margir áttu yfir milljarð í þessum sjóðum og fengu 80 og eitthvað prósent, eins og út úr sjóði Glitnis, sjóði 9. Hversu margir áttu yfir 10 milljarða? Hversu margir áttu yfir 50 milljarða? Við spurðum líka hversu margir og hverjir tóku út úr þessum sjóðum í aðdraganda hrunsins.

Nú er það svo að rannsóknarnefndin hefur vísað til hins sérstaka saksóknara og til Fjármálaeftirlitsins að rannsaka vel möguleg brot á bankaleynd, þ.e. upplýsingastreymi. Hverjir vissu hvernig sjóðirnir stóðu og bankarnir, og voru að taka út 70 milljarða á síðustu dögunum áður en sjóðunum var lokað 3. október? Hverjir vissu það? Þetta verður rannsakað að tilhlutan rannsóknarnefndarinnar. Enn fremur hvernig stjórnendur sjóðanna, eigendur bankanna og rekstrarfélögin stóðu undir ábyrgð sinni og hvort þar var um refsiverða háttsemi að ræða þegar þeir tóku ákvarðanir um aukna áhættu í sjóðunum, hvernig þeir blekktu menn til að leggja fé inn í sjóðina. Þetta kemur allt saman fram í skýrslunni á þessum 110 síðum. En það sem ekki kemur fram hér, herra forseti, og er tilefni þess að ég vildi vekja sérstaka athygli á þessu er að á 10 síðum, á bls. 229–239 í 14. kafla 4. bindis rannsóknarskýrslunnar, kemur fram ítarleg frásögn af því hvað gerðist þessa daga. Dagana eftir að fjármálaráðuneytið stöðvaði viðskipti í sjóðunum 3. október þangað til þeim var tilkynnt um að það skyldi slíta þeim þann 17. október og svo fram að því að það var greitt úr þeim í lok október og byrjun nóvember. Og þar eru ansi margir leikendur á sviði. Þar koma fram mörg nöfn, Björgvin G. Sigurðsson, Jón Þór Sturluson, aðstoðarmaður hans, Geir Hilmar Haarde, ráðgjafi hans Jón Steinsson, ráðuneytisstjóri hans Bolli Þór Bollason, Jónas Fr. Jónsson, forstjóri Fjármálaeftirlitsins, Árni Mathiesen, og loks Tryggvi Þór Herbertsson og Illugi Gunnarsson.

Það er dapurlegt að Alþingi hefur ekki getað kallað fram upplýsingar um það fyrr hvað gerðist þessa daga þrátt fyrir ítrekaðar fyrirspurnir, skýrslubeiðnir, umræður í nefndum, og þetta er eitthvað sem við þingmenn verðum að bæta. Það er greinilegt að þær víðtæku heimildir sem rannsóknarnefndin hafði dugðu til að kalla þessar upplýsingar fram. Verkfærin sem þingmenn hafa hafa ekki dugað til þess. Ráðherrar og stofnanir brugðust og virtu Alþingi hvorki svars né virðingar, vísuðu í bankaleynd, sögðu nei, þessu verður ekki svarað, og því miður, herra forseti, skrökvuðu að þinginu. Það eru stór orð (Forseti hringir.) en ég get ekki annað en sagt þau. Þetta er sá lærdómur sem við þingmenn verðum að horfa til og bæta í okkar starfsháttum. Við verðum að fá betri (Forseti hringir.) heimildir til þess að krefja ráðherra svara.