138. löggjafarþing — 106. fundur,  15. apr. 2010.

tekjuskattur.

506. mál
[16:04]
Horfa

Sigríður Ingibjörg Ingadóttir (Sf):

Virðulegi forseti. Við í efnahags- og skattanefnd munum nú taka þetta frumvarp til umræðu í nefndinni og ég fagna því að hv. þm. Pétur H. Blöndal ætli að veita því brautargengi. Ég tel að þetta sé mjög gott frumvarp, bæði mun það vinna gegn atvinnuleysi í stétt byggingariðnaðarmanna, sem er mjög mikið þessi missirin, og jafnframt mun það koma í veg fyrir svarta atvinnustarfsemi og draga úr misnotkun á bótum í almannatryggingakerfinu.

Varðandi umræðu hv. þm. Péturs H. Blöndals um að það ætti frekar að fara í aðgerðir sem hvettu til sparnaðar vil ég minna hv. þingmann á það, frú forseti, að þegar fjölskyldur kaupa sér húsnæði eru það einu kaup heimilanna sem teljast til fjárfestinga og endurbætur á því húsnæði munu auka virði þeirra fjárfestinga. Það má því með ákveðnum vilja líta á það sem sparnað heimilanna þegar þær eignir sem teljast til fjárfestinga í eigu heimilanna eru endurbættar.

Í nefndinni eigum við eftir að fara yfir kosti og galla þessa frumvarps. Ég held að þrátt fyrir orð hv. þm. Péturs H. Blöndals um flækjustig í skattkerfinu sé það nú þannig að þegar við reynum að koma á ívilnandi þáttum þarf auðvitað að upplýsa fólk um það. Það er kannski umræða sem við ættum að taka í nefndinni. Ég mun fagna því ef við ræðum hvernig við getum komið því til skila hver réttindi og skyldur borgaranna í þessu landi eru betur en gert er í dag. Við höfum mikið rætt þetta varðandi skuldavanda heimilanna þar sem það er viðvarandi vandamál að koma til skila þeim réttarbótum sem hafa verið gerðar á málefnum skuldugra heimila. Ég held að við eigum að ræða þetta alvarlega svo að öllum sé ljóst hvaða réttindi þeir eiga í sameiginlegum kerfum okkar landsmanna.

Nefndin mun sem sagt taka þetta mál til umfjöllunar og ég reikna með því að við verðum í góðri samvinnu um að ná þessu máli í gegn sem fyrst.