138. löggjafarþing — 106. fundur,  15. apr. 2010.

Lífeyrissjóður starfsmanna ríkisins og Lífeyrissjóður hjúkrunarfræðinga.

529. mál
[16:10]
Horfa

Pétur H. Blöndal (S):

Frú forseti. Hér er verið að laga villu í frumvarpi sem var sett árið 1996 og það segir mér að Alþingi þurfi að vanda enn frekar til lagasetningar þegar það hyggst setja lög. Á þeim tíma barðist ég mjög gegn þessu frumvarpi. Ég vildi að opinberir starfsmenn gætu valið annaðhvort há laun eins og almennur markaður bauð og þeir vildu fá og sömu lífeyrisréttindi og almennur markaður bauð en þeir vildu ekki fá, eða lág laun og góðan lífeyrisrétt eins og þeir höfðu í B-deildinni, eða forveri hennar, LSR. Þeir fengu hvort tveggja. Það var mjög mikil barátta — við hverja? Við ráðuneytið, við mennina sem áttu hagsmuni af því að ná þessu fram, bæði hækkun launa og góðum lífeyrisrétti. Afleiðingin er sú, frú forseti, mig minnir að ég hafi reiknað það út sem tryggingafræðingur að það mundi kosta svona 40–50 milljarða. Skuldbindingin kostar 420 milljarða í dag.

Nú eru lífeyrisþegar orðnir 13.000. Það vantar allar upplýsingar um þennan sjóð í frumvarpinu. Ég sakna þess verulega. Ég vil að hæstv. fjármálaráðherra bæti úr og láti okkur fá upplýsingar um t.d. hversu margir greiða í þennan sjóð. Ég fletti því upp í skýrslu LSR og á heimasíðunni kemur fram að 13.000 manns eru lífeyrisþegar þannig að sennilega eiga um 15.000 manns ógreidda skuldbindingu upp á 420 milljarða. Í mjög grófum útreikningi sýnist mér að það séu um 30 milljónir á mann. 30 milljónir á mann eru óuppgerð skuldbinding ríkissjóðs gagnvart B-deildinni. Hvert stefnum við eiginlega? Ég nefndi í morgun að 420 milljarðar eru lauslega reiknað um 1,4 milljónir á hvern einasta Íslending. Það segir okkur að hver einasti Íslendingur, litlu börnin og gamla fólkið og allir taldir með, skuldar ríkinu 1,4 milljónir vegna þessarar skuldbindingar sem er óuppgerð. Þetta er tvöfalt Icesave. Þetta hefur gerst þegjandi og hljóðalaust. Ég benti á það árið 1996 en það var ekki hlustað. Mér var haldið utan við það, algjörlega. Það var gert kerfisbundið til þess að óþægileg sjónarmið kæmust ekki að. Núna erum við að borga þarna og ég fullyrði að inni í B-deildinni er töluvert um oftryggingu. Menn fá mjög góðan lífeyri en ég fæ heldur ekki upplýsingar um það.

Það vantar því töluvert mikið af upplýsingum. Ég geri ráð fyrir því að nefndin muni krefjast þess að fá að vita hvað fólk fær í lífeyri úr B-deildinni og hvaða hópar eru í B-deildinni. Það skyldu ekki vera ráðuneytismenn, ráðuneytisstjórar sem eru með nokkuð hærri laun en þingmenn? Þetta er töluvert mikið mál sem við erum að tala um hérna. Við erum náttúrlega bara að tala um lög þannig að menn geti ekki seilst enn frekar til fjárins inn í þessari B-deild. Það er það sem hæstv. fjármálaráðherra hefði átt að segja, að menn ætluðu bæði að borga í annan lífeyrissjóð og taka lífeyri úr B-deildinni, eða þannig skildi ég það.

Ég hef ekki getað sett mig nákvæmlega inn í þetta frumvarp, frú forseti, vegna þess hvað ég hef haft stuttan tíma til þess. Ég er búinn að vera í umræðu hérna um allt annað mál, mjög veigamikið. Ég er að lesa 2.300 síður og svo kemur þetta til viðbótar. Við eigum að afgreiða sex mál í dag með miklum hraða. Maður reynir að kynna sér þetta og ég er búinn að lesa þetta á heimasíðunni en ég mun gera kröfu um að nefndin fái upplýsingar um hvað sé að gerast í þessari B-deild, því þar eru gífurlegar skuldbindingar. Þær falla til með vaxandi hraða núna eftir því sem fram líður, töluvert vaxandi. Það væri kannski gaman að hæstv. fjármálaráðherra upplýsti Alþingi um þessa skuldbindingu, hvað það sé mikið á ári sem við borgum þarna í 20–30 ár.