138. löggjafarþing — 106. fundur,  15. apr. 2010.

bygging nýs Landspítala við Hringbraut.

548. mál
[16:51]
Horfa

Tryggvi Þór Herbertsson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Við höfum undanfarna daga rætt svokallaða rannsóknarskýrslu Alþingis þar sem fram kemur mikil gagnrýni á hvernig staðið hefur verið að lagasetningu og stjórnsýslu almennt. Þess vegna er kannski ástæða til þess að fagna því að það virðist hafa verið leitað til erlendra sérfræðinga um málið og norsku hönnunar- og ráðgjafarfyrirtækin Momentum Arkitekter AS og Hospitalitet AS voru fengin til að vera stjórnvöldum innan handar með þetta allt saman. M.a. voru þau beðin um að, með leyfi forseta:

„Komast til botns í því hvað það kostaði íslenskt samfélag að „gera ekkert“…“

Meginniðurstöður ráðgjafarfyrirtækjanna eru m.a., með leyfi forseta:

„Það er miklu dýrara að „gera ekkert“ en að ráðast í framkvæmdir.“

Eigum við að byggja ákvörðun um svo stóra framkvæmd á þessari úttekt? Er það ekki akkúrat það sem rannsóknarskýrslan sagði að við ættum ekki að gera?

Jafnframt fæ ég það ekki til að ganga upp í huga mínum hvernig við getum farið úr 53.000 fermetrum í 119.000 fermetra en samt sparað peninga. Þetta er næstum því tvöföldun á húsnæði, nema ég misskilji eitthvað. Kannski misskil ég það að Fossvogur sé ekki inni í þessu eða eitthvað annað slíkt. Ef ég fengi svör við þessum tveimur spurningum frá hæstv. fjármálaráðherra.