138. löggjafarþing — 106. fundur,  15. apr. 2010.

fríverslunarsamningur milli Fríverslunarsamtaka Evrópu og Lýðveldisins Kólumbíu o.fl.

580. mál
[18:49]
Horfa

Gunnar Bragi Sveinsson (F):

Virðulegi forseti. Ég setti mig á mælendaskrá vegna þess að ég hafði grun um að ég þyrfti aðeins að tala meira við hæstv. ráðherra. (Gripið fram í.) Nei. Hæstv. ráðherra, það er rétt, við eigum örugglega eftir að tala oft saman um þetta.

Mig langar að spyrja hæstv. ráðherra af því að ég veit að hann mun örugglega koma hér upp. Er það svo að Kínverjar hafi slitið viðræðum við okkur út af inngöngu eða aðildarumsókn okkar að Evrópusambandinu? Er það þannig? Það er auðvelt að svara þessu, held ég.

Mörg ríki hafa lagt mikið á sig, að ég best veit, til að ná samningum við Kínverja m.a. og Indverja líka, þar sem þeir eru taldir með ört vaxandi hagkerfum heimsins, til að ná góðum samningum. Meðan eyðum við stórfé í viðræður sem ég vil meina að sé í raun bara aðildaraðlögun að Evrópusambandinu, því að það kallast ekki annað á þeim bænum, ef ég veit rétt. Svo er hitt að ég spurði hæstv. ráðherra skriflegrar spurningar ekki alls fyrir löngu um varanlegar undanþágur frá samningum við Evrópusambandið og það svar er mjög athyglisvert. Mun ég vonandi fá tækifæri til að ræða það sérstaklega síðar, því að það kemur vitanlega fram í því svari að það eru engar varanlegar undanþágur frá því að ganga í Evrópusambandið, þannig að þótt við gerum fríverslunarsamninga í dag munum við ekki fá að gera þá þegar við komum inn í það samband.

Hitt er svo líka alveg augljóst varðandi undanþágur, og það er það sem okkur greinir vitanlega á um, að þegar því er haldið fram, eins og hæstv. ráðherra nefndi áðan, að það sé verið að semja um aðild Íslands að Evrópusambandinu, er verið að semja um aðlögun Íslands að reglum Evrópusambandsins. Eins og kemur fram í svari hæstv. ráðherra, sem lagt var fram fyrir nokkrum dögum, eru ekki undanþágur frá því að ganga inn í Evrópusambandið, ekki undanþágur sem geta talist sem slíkar. Enda staðfesti ágætur þingmaður sem var hjá utanríkismálanefnd í vikunni að Evrópusambandið veitir ekki undanþágur, en það er sveigjanleiki, og kallað „flexibility“ held ég að sagt hafi verið á fundinum, í aðlöguninni. Þarna greinir okkur á. Við erum því ekki sammála um þetta, hvort verið er að tala um samninga eða hreinlega aðlögun að þeim samningum eða reglum sem nú gilda innan Evrópusambandsins.

En svo er það þetta með Kína. Ég ætla ekki að tefja umræðuna lengur, því að ég veit að við erum að uppfylla skyldur okkar fyrst og fremst með því að samþykkja þennan samning varðandi Kólumbíu, en ég vildi nota tækifærið af því við erum að tala um fríverslunarsamninga og spyrja hvort það sé rétt að Kínverjar hafi slitið þessum viðræðum.