138. löggjafarþing — 107. fundur,  16. apr. 2010.

lögreglulög.

586. mál
[12:55]
Horfa

Birgir Ármannsson (S) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég vil nú í upphafi þakka hæstv. dómsmálaráðherra fyrir að leggja þetta frumvarp fram og þakka vinnuna sem liggur þar að baki. Ég tek þó undir það sem kom fram í ræðu hæstv. ráðherra hér áðan að málið sé þess eðlis að það sé auðvitað nauðsynlegt að vel verði yfir það farið í allsherjarnefnd og ýmsir þættir skoðaðir nánar. Þá er ég bæði að velta fyrir mér ýmsum útfærsluatriðum sem frumvarpið sjálft tekur kannski ekki á því að ég held að nauðsynlegt sé að þingið sjái betur fyrir sér hvernig útfærslan verður en greinir í frumvarpstextanum sjálfum áður en málið hlýtur hér afgreiðslu.

Í annan stað hlýtur auðvitað að fara fram umræða á vettvangi allsherjarnefndar um annan undirliggjandi þátt þeirrar stefnumörkunar sem frumvarpið byggir á. Það er sú krafa sem fram hefur komið í sambandi við mótun fjárlagaáætlana fyrir næstu ár, þ.e. að draga úr framlögum til þessa málaflokks. Ég get eindregið tekið undir það að á þessu sviði eins og svo mörgum öðrum þarf að nýta sem best fjármunina sem fara til málaflokksins en ég held hins vegar að óhjákvæmilegt sé að gera athugasemdir við með hvaða hætti sparnaðar- eða hagræðingarkrafa hefur verið gerð til lögreglunnar á þessum tímum. Það eru auðvitað sjónarmið sem komu fram við umræður um afgreiðslu fjárlaga hér í vetur en náðu því miður ekki fram að ganga nema að litlu leyti vegna þess að frá mínum bæjardyrum séð er alveg ljóst að lögreglustarfsemin er slík grundvallarstarfsemi að hagræðingarkrafan (Forseti hringir.) hefði átt að vera minni en raun bar vitni í fjárlögunum.