138. löggjafarþing — 107. fundur,  16. apr. 2010.

tímabundin greiðsluaðlögun fasteignaveðkrafna á íbúðarhúsnæði.

561. mál
[15:50]
Horfa

félags- og tryggingamálaráðherra (Árni Páll Árnason) (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Könnun Seðlabankans staðfestir af hverju það eru rök fyrir því að taka með öðrum hætti þar á. Hún sýnir okkur að við erum búin að fækka um 6.000 í hópi þeirra heimila sem ella hefðu verið í vanda með þeim almennu aðgerðum sem við höfum gripið til sem er greiðslujöfnunin. Hún virkar gríðarlega vel á löng íbúðalán. Hún er fullnægjandi lausn og setur satt að segja skuldara á gengistryggðum lánum í það góða stöðu að bankarnir þurfa að bjóða afskaplega vel í umbreytingum yfir í íslensk kjör til að það borgi sig yfir höfuð fyrir fólk sem ekki er í söluhugleiðingum á næstu missirum að færa sig yfir. Við tryggjum með almennum aðgerðum að fólk geti borgað í samræmi við það sem það borgaði fyrir hrun.

Þetta á hins vegar ekki við um bílalánin vegna þess að þau eru svo stutt. Þess vegna tekur umbreyting þeirra yfir í íslensk kjör mið af því sem þau væru í ef tekið hefði verið verðtryggt íslenskt lán í upphafi. Þess vegna er hún svo mikilvæg. Hún er besta almenna aðgerðin sem við getum gripið til.