138. löggjafarþing — 109. fundur,  20. apr. 2010.

starfskjör launafólks og skyldutrygging lífeyrisréttinda.

558. mál
[17:18]
Horfa

félags- og tryggingamálaráðherra (Árni Páll Árnason) (Sf):

Virðulegi forseti. Ég mæli fyrir frumvarpi til laga um breytingu á lögum nr. 55/1980, um starfskjör launafólks og skyldutryggingu lífeyrisréttinda, með síðari breytingum.

Með frumvarpinu er gert ráð fyrir að skylda til að greiða í fræðslusjóði atvinnulífsins verði felld inn í 1. mgr. 6. gr. laganna. Breytingin sem lögð er til er undirliggjandi þeim markmiðum sem koma fram í stöðugleikasáttmála Alþýðusambands Íslands, Bandalags háskólamanna, Bandalags starfsmanna ríkis og bæja, Kennarasambands Íslands, Samtaka starfsmanna fjármálafyrirtækja, Samtaka atvinnulífsins, ríkisstjórnarinnar og Sambands íslenskra sveitarfélaga sem undirritaður var 25. júní 2009 um að ríkisstjórnin muni beita sér fyrir tilteknum aðgerðum sem koma fram í yfirlýsingu ríkisstjórnarinnar frá 17. febrúar 2008 um réttindi launafólks. Svo ná megi þeim markmiðum sem þar koma fram þótti mikilvægt að tryggja að öllum atvinnurekendum verði skylt að greiða í fræðslusjóði atvinnulífsins iðgjöld þau sem aðildarsamtök vinnumarkaðarins semja um hverju sinni í kjarasamningsviðræðum á sama hátt og þeim er skylt að greiða í sjúkrasjóði og orlofssjóði stéttarfélaganna. Fyrir liggur sú túlkun dómstóla að að öðrum kosti dugi ákvæði laga nr. 55/1980 ekki til þess að kveða á um þessa almennu greiðsluskyldu þar sem túlkun dómstóla hefur verið að upptalning á þeim sjóðum sem skylt er að greiða í samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laganna sé tæmandi í lögunum sjálfum. Er því frumvarp þetta lagt fram í þeim tilgangi að bæta úr þessu.

Virðulegi forseti. Að lokinni þessari umræðu legg ég til að frumvarpinu verði vísað til hv. félags- og tryggingamálanefndar.