138. löggjafarþing — 109. fundur,  20. apr. 2010.

<varnarmálalög.

581. mál
[20:15]
Horfa

utanríkisráðherra (Össur Skarphéðinsson) (Sf) (andsvar):

Frú forseti. Ég vil byrja á því að þakka hv. þm. Jóni Gunnarssyni fyrir yfirgripsmikla ræðu sem ber vitni um að hann þekkir þennan málaflokk mjög vel og sennilega miklu betur en ráðherrann. Raunar hefur ráðherrann stundum gengið í smiðju til formanns stjórnar Samræmingarstöðvarinnar til þess að fá upplýsingar — án þess að ég vilji gera viðkomandi að nokkru leyti ábyrgan fyrir því sem ég er hér að flytja.

Ég er hv. þingmanni sammála um margt, þó aðallega tvennt. Í fyrsta lagi er ég þeirrar skoðunar að þegar kemur að mótun öryggisstefnu fyrir Ísland sé mikilvægt að þingið leiki þar mjög stórt hlutverk. Um það erum við hv. þingmaður sammála. Hugsanlega hlustaði hv. þingmaður ekki á framsöguræðu mína hér í dag en niðurlagsorð hennar voru þau að ég hygðist ráðast í mótun öryggisstefnu fyrir Ísland með dyggri liðveislu þingsins.

Í öðru lagi sagði hv. þingmaður, og vísaði til áhættumatsskýrslunnar sem unnin var undir stjórn prófessors Vals Ingimundarsonar, að ein af niðurstöðum hennar væri sú að hernaðarógn væri hér nánast engin. Svo er. Það mat er í samræmi við mat nokkurra nágrannalanda sem hafa sagt slíkt algjörlega skýrt.

Hv. þingmaður tók alveg utan um kjarna málsins, a.m.k. þann part hans sem lýtur að framtíðarstefnu, þegar hann sagði: Hernaðarógnin er nánast engin og í ljósi þess ætti að vinna öryggis- og varnarstefnuna. Ég er alveg sammála hv. þingmanni um það. Ég tel að það þurfi að vinna nýja öryggis- og varnarstefnu fyrir Ísland sem byggir á þeim breyttu viðhorfum sem uppi eru í heiminum, breyttum aðstæðum og ekki síst á þeirri staðreynd að bandaríski herinn er ekki lengur hér í landi. Þá stefnu tel ég að Íslendingar eigi að móta sjálfir. Þeir geta gert það í samráði, eftir því sem þurfa þykir, við samstarfsaðila sína en það er fyrst og síðast hlutverk þeirra sjálfra.