138. löggjafarþing — 109. fundur,  20. apr. 2010.

varnarmálalög.

581. mál
[20:25]
Horfa

utanríkisráðherra (Össur Skarphéðinsson) (Sf):

Frú forseti. Ég þakka þá umræðu sem hér hefur staðið í nokkrar klukkustundir. Það er alveg ljóst að hv. þingmenn hafa áhuga á þessum málaflokki og margir þeirra hafa mjög mikla þekkingu á varnar- og öryggismálum. Ég hef í gegnum umræðuna gert mér far um að koma upp í andsvör til að svara þeim spurningum sem hefur verið beint beinlínis til mín um ákveðin atriði. Það kann að vera að mér hafi ekki tekist að svara nokkrum spurninganna. Um þær spurningar sem hv. þm. Ragnheiður Elín Árnadóttir beindi til mín undir lok máls síns er algjörlega ljóst að að því er varðar starfslok forstjóra fer að lögum. Um það gilda lög og reglur og eftir þeim verður farið.

Hv. þingmaður spyr mig síðan um kostnað við breytingastjóra. Ég kannast ekki við að orðið breytingastjóri komi fyrir í frumvarpinu. Ég held að hv. þingmaður sé að rugla því saman við eitthvað annað og kannski hefur hún ekki lesið nógu vel þetta ágæta frumvarp. Ekki þar fyrir að ég ætli mér að taka þátt í eins konar uppeldi á henni, hún hefur frábeðið sér það, en hins vegar get ég fullvissað hana um að ef hún les frumvarpið rækilega finnur hún ekki orðið breytingastjóri.

Að öðru leyti, frú forseti, er ég þeirrar skoðunar að sú stefna sem menn eru að marka hér verði mjög heilladrjúg fyrir okkur í framtíðinni. Ég held að frá því að herinn fór árið 2006 hafi Íslendingar forsómað það að móta með nægilega víðtækum hætti öryggisstefnu sem dugar okkar til framtíðar. Raunar var lofað árið 2006 að ráðast í það. Ég hef ákveðið að uppfylla það loforð sem Sjálfstæðisflokkurinn sveik árið 2006. Í kjölfar mikillar gagnrýni þáverandi stjórnarandstöðu um að þessi mál væru í lausu lofti í kjölfar þeirra viðræðna sem hér urðu við bandamenn okkar eftir að herinn fór ákaflega snögglega lofaði Sjálfstæðisflokkurinn því að víðtækt pólitískt samráð yrði um öryggisstefnu til framtíðar sem byggðist á breyttum aðstæðum og breyttu viðhorfum í okkar heimshluta. Margsinnis var gengið eftir því af hálfu stjórnarandstöðunnar að þetta loforð yrði efnt. En það var ekki efnt. Ég tel hins vegar að það sé ákaflega nauðsynlegt að mynduð verði sem mest þverpólitísk sátt og samstaða um slíka stefnu í framtíðinni. Þess vegna lýsti ég því yfir við lok ræðu minnar í dag að ég hygðist þegar þing kemur saman í haust leita eftir nánu samráði við Alþingi um það með hvaða hætti það verður gert með því móti að sem mest sátt skapist um nýja stefnu.

Það liggur alveg ljóst fyrir að það er ágreiningur uppi. Í þessari umræðu hefur sá ágreiningur bara komið fram innan eins flokks, hjá Sjálfstæðisflokknum. Engir aðrir hafa lýst því yfir að áhöld kunni að vera um að tilteknir þættir í varnar- og öryggisstefnunni eins og hún birtist í dag í samstarfi okkar í gegnum Varnarmálastofnun Atlantshafsbandalagsins ættu að hverfa en þó hefur komið fram að þingmaður Sjálfstæðisflokksins hefur lýst efasemdum um tvo þætti, þar af annan sem kalla má beinlínis lykilþátt í starfi þeirrar stofnunar. Mér finnst eðlilegt að uppi sé blæbrigðamunur og eftir atvikum skoðanamunur á afstöðu manna. Ég geri engan ágreining við Sjálfstæðisflokkinn þó að hann hafi mismunandi afstöðu til þessa máls. Það liggur þó algjörlega kýrskýrt fyrir eftir þessa umræðu að það er verulegur ágreiningur á millum þeirra tveggja talsmanna sem hér hafa talað af hálfu Sjálfstæðisflokksins í dag. Enginn annar í þessari umræðu hefur talað um að fella ætti niður tiltekna hluti í starfi Varnarmálastofnunar og þar með að fella niður störf — nema einn hv. þingmaður Sjálfstæðisflokksins.

Ég hef lagt þetta mál upp með þeim hætti að hér sé ráðist í ákveðnar breytingar sem fela það í sér að öllum núverandi starfsþáttum Varnarmálastofnunar verði fundinn staður hjá borgaralegum stofnunum. Ég tek fram að Varnarmálastofnun skilgreinir sjálfa sig sem stofnun sem starfar í hernaðarlegum tilgangi. Það verður að tryggja algjörlega, eins og ég hef reynt að gera í þessu frumvarpi, að starfsmenn eigi kost á því að fá vinnu hjá þeim stofnunum sem taka við viðkomandi verkefnum. Ég held að ekki sé hægt að kveða skýrar á um það en gert er í frumvarpinu en ég hef sömuleiðis í þessari umræðu óskað eftir því að ef þingmenn sem fjalla um málið í utanríkismálanefnd telja að sá vilji minn sé ekki túlkaður nægilega skýrt í frumvarpinu verði því breytt til þess að við náum því sameiginlega markmiði. Það virðist alveg ljóst að allir sem hér hafa talað nema hugsanlega einn þingmaður eru þeirrar skoðunar að sá áfangi sem þarna er tekinn eigi ekki að leiða til þess að starfsmenn hafi ekki fullan rétt á að halda áfram störfum.

Ég sagði í ræðu minni fyrr í dag að í framhaldi af því telji ég að Íslendingar þurfi að ráðast í það verkefni að móta nýja öryggis- og varnarstefnu til framtíðar. Hún á að byggjast á borgaralegum stofnunum og borgaralegum gildum og miðast við það sem er helsta einkenni utanríkisstefnu okkar og aðall okkar sem þjóðar — herleysið. Ísland hefur ekki her og við höfum ekki áhuga á að byggja upp her.

Ég tel mikilvægt að við fetum þann stíg sem hv. þm. Jón Gunnarsson, sem er einn af helstu sérfræðingum þingflokks sjálfstæðismanna í utanríkismálum, leiddi okkur inn á í dag. Hv. þingmaður sagði alveg skýrt að það væri engin bein hernaðarógn við Ísland. Það er frískandi að heyra þingmann Sjálfstæðisflokksins tala með þeim hætti. Það vill svo til að ég er honum sammála. Það vill svo til að það er ein af meginniðurstöðunum í áhættumatsskýrslunni sem við höfum fyrr drepið á í dag og var unnin af hópi valinkunnra sérfræðinga undir forustu manns sem nýtur mikils álits fyrir hlutlægni, þekkingu og reynslu á þessu sviði. Það skiptir einfaldlega máli. Eigi að síður megum við ekki draga of sterkar ályktanir af þeirri staðreynd að það er mat okkar og sumra nágrannaþjóðanna að eins og sakir standa í heimshluta okkar steðji engin bein hernaðarógn að Íslandi.

Við Íslendingar vitum, og hugsanlega best allra þjóða af reynslu síðustu tveggja ára og ekki síst liðinnar viku líka, að allt er breytingum undirorpið. Sérhver ríkisstjórn hefur þá frumskyldu að tryggja öryggi landsins. Það höfum við Íslendingar gert um langa hríð með alþjóðlegum samningum sem tiltölulega lítil virk andstaða er gegn í landinu. Við þurfum að halda þeim gagnvegum opnum og við þurfum að halda þeim virkum. Meginályktunin sem ég a.m.k. dró af þrautlestri skýrslu Vals Ingimundarsonar prófessors var einmitt sú að við þyrftum að byggja stefnu til framtíðar um varnir og öryggi sem byggðist á miklu víðfeðmara öryggishugtaki en hingað til. Reynslan hefur beint kastljósi flestra þjóða í okkar heimshluta, flestra þjóða sem eru í þeirri röð sem við teljum okkur til, að nýjum og allt öðruvísi ógnum en menn byggðu áður varnar- og öryggisstefnu á. Á þessari nýju stöðu og nýju aðstæðum verðum við að byggja stefnu okkar til framtíðar. Sú öryggisstefna þarf líka að taka mið af nýjum aðstæðum sem eru og munu skapast á norðurslóðum og gætu á næstu áratugum krafist aukinnar samvinnu margra þjóða, ekki bara gegn aðsteðjandi vám heldur líka til að geta uppfyllt nýjar skyldur sem á okkur kunna að falla um leit og björgun fari svo, eins og allt bendir til, að á fyrri hluta þessarar aldar muni umferð um Norðurhöf aukast. Nýting auðlinda á því svæði mun þar líka aukast í krafti hlýnunar andrúmsloftsins og kalla á meiri umferð.

Ég tel reyndar, svo öllu sé til haga haldið, að í því efni hafi fyrri ríkisstjórnir unnið ákaflega gott verk í formi mikilvægra gagnkvæmra samninga sem ég held að muni reynast Íslendingum notadrjúgir í framtíðinni. Við þurfum að huga að fleiri slíkum samningum við fleiri þjóðir, og að því er og verður unnið í utanríkisráðuneytinu. Þetta eru allt saman steinar sem lagðir eru í púkk slíkrar stefnumótunar. Á þessum sviðum er horft til þessara nýju ógna sem augljóslega eru þær sem nágrannaþjóðirnar telja skapa sér mesta hættu. Við horfum til nýrra viðhorfa og aðstæðna í umhverfismálum, líka nýrra aðstæðna sem hafa skapast á norðurhveli jarðar í kjölfar ákveðinnar þróunar í Rússlandi sem við verðum að telja jákvæða. Sú ógn, svo maður segi það upphátt, sem menn töldu áður einkum stafa að okkur var ógnin úr austri. Þess vegna er það líka innlegg í utanríkisstefnu lítillar þjóðar eins og okkar sem er fjarri alfaraleið að gera allt sem við getum til að draga úr viðsjám millum stórveldanna og þeirra miklu bandalaga sem þjóðir hafa myndað á norðurhveli. Ég er þá að tala um að okkur Íslendingum beri ekki síður skylda til að sinna öryggishlutverki okkar gagnvart okkar eigin þjóð með því að gera það sem við getum með okkar smáa hætti til að draga úr spennu á millum t.d. Rússa og Evrópusambandsins. Um þetta þurfum við líka að hugsa.

Þær hættur sem við Íslendingar teljum hugsanlega mestar gegn öryggi okkar eru reifaðar ákaflega vel í áhættumatsskýrslu Vals Ingimundarsonar prófessors og það eru hættur sem ekki síst þarf að bregðast við fyrir atbeina borgaralegra stofnana. Ég er þeirrar skoðunar að það sé ákaflega þarft innlegg í mótun nýrrar öryggis- og varnarstefnu til framtíðar að við skulum hafa ákveðið það sem ríkisstjórn að ráðast í myndun innanríkisráðuneytis. Ég tek eftir því að talsmenn tveggja flokka í stjórnarandstöðu sem hér hafa mælt fram viðhorf í dag um það frumvarp sem hér liggur fyrir hafa báðir lýst jákvæðri afstöðu til stofnunar innanríkisráðuneytis. Eins og ég hef áður sagt fannst mér og ég leyfi mér að túlka, af því að enn þá ríkir málfrelsi í þessum sölum, mál hv. þm. Ragnheiðar Elínar Árnadóttur með þeim hætti að hún hafi í reynd kallað eftir því að stofnun innanríkisráðuneytis yrði flýtt, og það helst svo mikið sem verða mætti, og að hún teldi að því ráðuneyti stofnuðu mjög jákvætt að ráðast í þær breytingar sem eru í því frumvarpi sem við ræðum hér. Ég tel að sú hugsun sem birtist í frumvarpinu taki mið af þessu með áherslum sínum á þróun og uppbyggingu borgaralegra stofnana á sviði öryggismála. Henni er af hálfu ríkisstjórnarinnar ætlað að vera partur af framtíðarmyndinni. Hún miðar sem sagt að því að í fyllingu tímans verði hér til ný og öflug stofnun við sameiningu þeirra tveggja ráðuneyta sem ráða fyrir þeim málaflokkum sem mestu skipta fyrir öryggi og varnir landsins í daglegu lífi okkar sem þjóðar. Á sama tíma liggur líka alveg skýrt fyrir að viljinn stendur til þess að utanríkisráðuneytið fari áfram með hina utanríkispólitísku stefnumótun á sviði öryggis- og varnarmála og sjái t.d. um samskiptin við alþjóðastofnanir á því sviði og fari með þau mál sem varða aðild okkar að Atlantshafsbandalaginu og öðrum milliríkjasamningum.

Svo ég leyfi mér á þessum tímapunkti ræðu minnar að svara spurningu hv. þm. Eyglóar Harðardóttur er ekki ætlunin að Ísland gangi úr Atlantshafsbandalaginu. Ég veit að það gleður þá hv. þingmenn sem hér eru eftir í salnum. En ný stefna mun kalla á náið samstarf á ýmsum sviðum, ýmsum efnum milli utanríkis- og innanríkisráðuneyta, en eins og hér hefur komið fram hefur það samstarf hvort sem er þróast mjög hratt á síðustu árum. Borgaralegar stofnanir á borð við t.d. Landhelgisgæsluna og embætti ríkislögreglustjóra eru nú þegar í mjög sterkum alþjóðlegum samskiptum á sviði öryggis- og varnarmála og hafa staðið sig ákaflega vel í því.

Frú forseti. Ég held (Forseti hringir.) að ég hafi svarað öllum þeim spurningum sem til mín var beint og þar að auki reynt eftir mætti að skýra viðhorf mín og ríkisstjórnarinnar til mótunar nýrrar öryggis- og varnarmálastefnu til framtíðar.