138. löggjafarþing — 109. fundur,  20. apr. 2010.

varnarmálalög.

581. mál
[20:45]
Horfa

Ragnheiður E. Árnadóttir (S) (andsvar):

Virðulegur forseti. Það er alveg merkilegt hvað hæstv. ráðherra vill meira tala um stefnu Sjálfstæðisflokksins í þessum málum en stefnu sinnar eigin ríkisstjórnar. Ég vildi óska að hann tæki svona mikið mark á okkur sjálfstæðismönnum í öðrum málum sem við erum með til umræðu.

En það var annað sem hæstv. ráðherra sagði í ræðu sinni og hvatti til þverpólitísks samráðs, hann sagði að strax í haust ætlaði hann að beita sér fyrir því að leita eftir samráði. Þá spyr ég: Af hverju förum við ekki í samráðið núna? Hæstv. ráðherra getur ekki túlkað með neinum öðrum hætti það sem ég segi hér: Við eigum að flýta okkur hægt. Það er alveg rétt hjá hæstv. ráðherra að það er ákveðinn blæbrigðamunur á milli mín og hv. þm. Jóns Gunnarssonar, einmitt vegna þess að það eru margar hliðar á þessu máli. Varnarmálastofnun er ekki stofnun með langa reynslu. Það eru mörg sjónarmið uppi, og jafnvel ef við teljum að stofnun innanríkisráðuneytis væri hugsanlega eitthvað sem gætum skoðað er minn punktur þessi: Flýtum okkur hægt, gerum þetta rétt, byrjum á réttum enda sem er svo sannarlega ekki sá að leggja niður stofnunina, dreifa verkefnunum út um allar koppagrundir og reyna svo að troða þessu inn í eitthvert ráðuneyti sem einhvern tíma hugsanlega verður stofnað, jafnvel þótt hæstv. forsætisráðherra hafi nefnt dagsetninguna áramót í einhverri ræðu sem hún hefur haldið. Við erum ekki komin á þann stað. Það verkefni er ekki komið vel á veg þannig að það er algjörlega kristaltært.

Varðandi breytingastjórann sem ég nefndi að væri í frumvarpinu er það rétt hjá hæstv. ráðherra að hann er ekki nefndur þar en hann er í skýrslunni sem ég hélt að væri grundvöllur þessa frumvarps. Ríkisstjórnin hefur hins vegar ákveðið að ráða ekki þennan breytingastjóra heldur bara verkefnisstjórnina. Þá spyr ég enn og aftur: Af hverju er ekki þeim starfsmanni sem hefur haft yfirumsjón með þessari stofnun falið að taka þátt í þessari vinnu? (Forseti hringir.)

Ég á eftir að ræða þessi mál í utanríkismálanefnd og eflaust eigum við hæstv. utanríkisráðherra eftir að eiga hér orðastað aftur en ég hvet ráðherrann (Forseti hringir.) til að flýta sér hægt.