138. löggjafarþing — 109. fundur,  20. apr. 2010.

rannsókn á fjárhagsstöðu skuldugra heimila.

570. mál
[22:35]
Horfa

efnahags- og viðskiptaráðherra (Gylfi Magnússon) (andsvar):

Virðulegi forseti. Vegna ummæla hv. þm. Lilju Mósesdóttur um að frumvarpið sé of seint fram komið þá vil ég benda á að eins og reyndar var rakið í framsöguræðu minni er þessi vinna sem nú er verið að hefja rökrétt framhald af þeirri vinnu sem Seðlabankinn vann með ágætum á síðasta ári og varpaði miklu ljósi á skuldastöðu heimila þótt vissulega svaraði hún ekki öllum spurningum frekar en aðrar rannsóknir. Ég tel að framhaldið núna komi á nokkuð eðlilegum tíma í ljósi þess að rannsókn Seðlabankans var unnin áður en flest þau úrræði sem ríkisstjórnin kynnti síðasta haust komu til framkvæmda. Núna eru þau að mestu komin til framkvæmda þó að einnig liggi fyrir að gripið verði til frekari úrræða, m.a. hvað varðar bílalán eins og hæstv. félagsmálaráðherra hefur rakið, þannig að nú tel ég réttan tíma til að leggja mat á stöðuna að teknu tilliti til þeirra úrræða sem þegar hafa verið kynnt og hrint í framkvæmd beinlínis til að meta að hvaða marki þau duga og hvar vandinn er enn þá brýnn. Í því samhengi vil ég benda á að í skýrslu, sem Seðlabankinn kynnti nýlega og var einhvers konar framhald af skýrslunni frá því í fyrra, voru tilgreindir sérstaklega tveir hópar: Ungt barnafólk sem keypti sér húsnæði seint á bólutímanum og þeir sem eru með þung bílalán sem þyrfti að huga að. Það liggur fyrir en þessi rannsókn ætti að geta greint enn frekar slíka hópa og hvaða úrræði nýtast þeim og vitaskuld verður fylgst með þróun talna um vanskil og nauðungarsölur.