138. löggjafarþing — 110. fundur,  21. apr. 2010.

varnarlínur sauðfjárvarnarsvæða.

422. mál
[13:23]
Horfa

Einar K. Guðfinnsson (S):

Virðulegi forseti. Hér er hreyft við mjög mikilvægu máli. Kjarni málsins er þessi: Norðan við þessa línu er ósýktur fjárstofn sem hefur skipt mjög miklu máli, m.a. þegar verið er að selja líflömb til svæða sem hafa lent í sýkingu. Þess vegna er mjög mikilvægt fyrir okkur að við getum varið þetta svæði þannig að þarna verði áfram ósýktur fjárstofn.

Það er líka rétt sem hæstv. ráðherra sagði hér áðan, að of litlu fjármagni hefur verið veitt til þessa verkefnis. Við þurfum að reyna að breyta því. Það þarf örugglega ekki mjög mikla fjármuni til viðbótar til þess að hægt sé að standa bærilega að því að halda við þessum sauðfjárveikilínum og við eigum að leggja metnað okkar í að það sé gert. Auðvitað þarf að forgangsraða í þessum efnum, því gerum við okkur grein fyrir. Sú forgangsröðun er hins vegar viðkvæm, það þekkjum við.

Skýrslan frá 2006 sem átti að vera fræðileg, og var auðvitað fræðileg og vönduð úttekt — um hana var enginn einhugur. Það er hins vegar mjög mikilvægt að við gerum okkur grein fyrir því að sumar línur eru mikilvægari en aðrar og þar verðum við sérstaklega að vanda okkur. Ég hvet til þess að (Forseti hringir.) við höldum áfram á þeirri braut að reyna að tryggja þessar sauðfjárveikilínur og ég þakka bæði málshefjanda og hæstv. ráðherra fyrir að hafa tekið þetta mál upp hér.