138. löggjafarþing — 112. fundur,  27. apr. 2010.

störf þingsins.

[13:39]
Horfa

Sigríður Ingibjörg Ingadóttir (Sf):

Frú forseti. Hv. þingmaður tekur til umfjöllunar viljayfirlýsingu stjórnvalda vegna efnahagsáætlunar sem unnin er í samstarfi við Alþjóðagjaldeyrissjóðinn og þar kemur fram að ríkisstjórnin og Alþingi eru að beita sér í því að festa í lög mikilvæg úrræði til að leysa skuldavanda heimila. Í hv. félags- og tryggingamálanefnd eru nú þrjú veigamikil frumvörp til meðferðar til að leysa þennan vanda, þar er nýtt frumvarp um greiðsluaðlögun sem tekið er út úr gjaldþrotaskiptalögunum og verður félagslegt úrræði. Þar eru í einu frumvarpi ýmis tímabundin úrræði fyrir fólk í greiðsluvanda og síðan lög um umboðsmann skuldara.

Það er mjög mikilvægt að nefna líka að hjá hv. allsherjarnefnd eru til meðferðar breytingar á lögum um gjaldþrotaskipti og nauðungarsölur. Í þeirri löggjöf er verið að tryggja rétt þeirra sem kunna að lenda í því að eign þeirra verði boðin upp á nauðungarsölu þannig að ef ekki næst markaðsvirði inn á uppboði sé ekki hægt að ganga að mismuninum hjá viðkomandi skuldara, og eins að fólk hafi rétt til afnota á eigninni eftir uppboð. Hér er um á annað þúsund fjölskyldur að ræða og það er mjög mikilvægt að við lítum fyrst og fremst til hagsmuna þess fólks sem í hlut á. Fyrir þessi heimili felast hagsmunirnir ekki í því að halda áfram að fresta nauðungarsölum heldur þarf að finna úrræði til að leysa vanda þeirra. Ríkisstjórnin telur að með þessum frumvörpum sé verið að leysa vanda þessara fjölskyldna auk þess sem Íbúðalánasjóður og fjármálastofnanir í landinu vinna markvisst að því (Forseti hringir.) að hafa samband við þessi heimili og fara yfir hvað hægt er að gera til að leysa vanda þeirra.