138. löggjafarþing — 112. fundur,  27. apr. 2010.

staða og fjárhagslegar afleiðingar eldgoss í Eyjafjallajökli.

[14:29]
Horfa

Eygló Harðardóttir (F):

Frú forseti. Ég þakka fyrir þessa umræðu. Það skiptir miklu máli að við ræðum það sem er að gerast þarna og afleiðingarnar af gosinu. Það sem ég vildi hins vegar segja við íbúa þessa svæðis og við okkur öll er að þetta tekur enda. Við getum svo sannarlega unnið okkur út úr þessu. Það höfum við sýnt margoft. Ef við horfum bara til baka til eldgossins í Vestmannaeyjum geta líka legið tækifæri í þeirri ógn sem við erum að fást við núna í Eyjafjallajökli.

Í Vestmannaeyjum urðu íbúar að yfirgefa Heimaey en þegar við snerum aftur mokuðum við bæinn undan öskunni og stóðum uppi með miklu betri höfn en áður. Ég þakka fyrir það í hvert skipti sem ég stíg út úr húsinu mínu hvað það er miklu meira skjól eftir það gos. Það liggja líka tækifæri í þessari ógn og við verðum að hafa það í huga.

Ég fagna því að ríkisstjórnin skyldi hafa tekið þá ákvörðun í dag að leggja allt að 350 millj. kr. til kynningar á landinu og enn fremur að ferðaþjónustan ætlar að leggja fram sambærilega upphæð. Þetta er mikill stuðningur við það sem ferðaþjónustan hringinn í kringum landið, og ekki hvað síst á þessu svæði, er búin að berjast við á undanförnum vikum, þ.e. að koma upplýsingum á framfæri til gesta sinna, til ferðamannanna, um að það sé öruggt að sækja Ísland heim. Það róar fólk. Þetta er það sem ríkisstjórnin þarf að leggja áherslu á þegar hún fer að úthluta þessum peningum, að athuga dreifinguna á fjármununum, gæta jafnræðis, að við höfum í huga reynsluna af því þegar við útdeildum peningum eftir árásina á tvíburaturnana.

Það sem ég vildi líka minna á að lokum er að þegar við ræddum þetta síðast talaði ég um hversu mikilvægt það væri að Vegagerðin skyldi hafa verið vel skipulögð fyrir flóðið sem kom (Forseti hringir.) og þá nefndi hæstv. samgönguráðherra að það hefði kostað væntanlega um 700 millj. kr. ef við hefðum þurft að byggja nýja brú yfir Markarfljótið. (Forseti hringir.) Núna getum við í staðinn notað þá fjármuni til að koma á framfæri upplýsingum til ferðamanna því að við viljum öll gjarnan sjá ferðamenn halda áfram að koma til Íslands.