138. löggjafarþing — 112. fundur,  27. apr. 2010.

stjórn fiskveiða.

370. mál
[14:41]
Horfa

Björn Valur Gíslason (Vg):

Virðulegi forseti. Hér er verið að taka ákvörðun um að taka 6 þús. tonna afla til handfæraveiða, strandveiða, eins og kallaðar eru í frumvarpinu. Þessi afli er ekki dreginn af því aflamarki sem úthlutað er á þessu fiskveiðiári og kemur því ekki til skerðingar þeirra aflamarksskipa sem veiða samkvæmt því í dag. (Gripið fram í.) Það mun hins vegar gerast á næsta ári, eins og kemur fram í frumvarpinu.

Á undanförnum árum hafa verið tekin að meðaltali u.þ.b. 6% af úthlutuðu aflamarki fram hjá aflamarksskipum. Reyndar hefur þetta minnkað á undanförnum árum en í tíð fyrri ríkisstjórnar og ráðherra var þetta um og yfir 6% að meðaltali í hinar og þessar aðgerðir til hliðar við aflamarkskerfið.

Í endurskoðunarnefnd sem nú starfar varðandi löggjöf um stjórn fiskveiða er m.a. verið að kalla eftir þessum atriðum, þ.e. að þarna sé ákveðið vægi á milli, fast hlutfall á milli aflamarks annars vegar og til annarra aðgerða. Ég á von á að niðurstaðan þar verði birt fljótlega (Forseti hringir.) og að hún muni hafa áhrif á þessi mál til framtíðar.