138. löggjafarþing — 113. fundur,  27. apr. 2010.

samkeppnislög.

572. mál
[15:48]
Horfa

efnahags- og viðskiptaráðherra (Gylfi Magnússon) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég á ekki von á því að það gangi eftir sem hv. þm. Lilja Mósesdóttir nefndi, þ.e. að þessu úrræði samkeppnisyfirvalda verði í verulegum mæli beitt á afmörkuðum mörkuðum í dreifbýli eða smærri sveitarfélögum utan höfuðborgarsvæðisins. Í flestum tilvikum eru markaðir hér á landi að mati samkeppnisyfirvalda taldir landið allt, og umræða um uppskiptingu fyrirtækja og markaðshlutdeild og annað slíkt tekur þá mið af því þótt vissulega séu einnig staðbundnir markaðir, t.d. í smásölu og þjónustu, sem menn sækja yfirleitt ekki mjög langt frá heimili sínu.

Það er þó ekki útilokað að upp gætu komið einhver slík dæmi sem þingmaðurinn hefur áhyggjur af en þá verð ég að benda á að vitaskuld verður að fara eftir efnum og ástæðum hverju sinni. Ef það virðist blasa við að kostnaður við að reka fleiri en eitt fyrirtæki í einni atvinnugrein á einum markaði yrði það mikill að hann mundi vega upp hugsanlegan ávinning af samkeppni sem fengist þá af því að fyrirtækin yrðu tvö en ekki eitt, tel ég mjög ólíklegt, nánast óhugsandi, að þessu úrræði yrði beitt. Í þeim tilvikum væri þá um það að ræða sem á máli hagfræðinnar er kölluð náttúruleg einkasala vegna stærðarhagkvæmni og það væru fyllilega málefnaleg sjónarmið til að mæla gegn uppskiptingu fyrirtækja.