138. löggjafarþing — 113. fundur,  27. apr. 2010.

stefnumótandi byggðaáætlun 2010--2013.

521. mál
[19:27]
Horfa

Unnur Brá Konráðsdóttir (S) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég vil beina tveimur örstuttum fyrirspurnum til hæstv. ráðherra og þakka ráðherranum fyrir þessa yfirferð. Í fyrsta lagi velti ég fyrir mér hvað þingsályktunartillagan kostar, hvað kostar að gera það sem hér er talað um, svo við áttum okkur á því hvað við erum með í höndunum.

Í öðru lagi, kannski aðeins flóknari spurning: Hverju breytir þetta? Ef þingsályktunartillagan fer í gegn og unnin verður stefnumótandi byggðaáætlun fyrir árin 2010–2013, hverju breytir það? Dæmi: Hverju breytir það fyrir Skaftárhrepp sem er svæði sem á undir högg að sækja vegna fólksfækkunar og færri atvinnutækifæra? Ég spyr vegna þess að þetta er mikill texti, talað mikið um samþættingu o.s.frv. en ég er að velta fyrir mér hvort við einbeitum okkur að réttum hlutum. Er hér á ferðinni það sem í daglegu tali kallast stundum froðusnakk en innihaldið er þegar til og kemur kannski ekki til með að breyta neinu fyrir íbúa landsins? Spurningin er eiginlega: Er keisarinn í einhverjum fötum í þingsályktunartillögunni?