138. löggjafarþing — 113. fundur,  27. apr. 2010.

stefnumótandi byggðaáætlun 2010--2013.

521. mál
[19:56]
Horfa

iðnaðarráðherra (Katrín Júlíusdóttir) (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Örstutt um þetta. Það er nú svo að hærra hlutfall fjármunanna sem fara í byggðaáætlun fara núna í vaxtarsamningana en áður þannig að framlögin til vaxtarsamninganna hækkuðu þó að því miður hafi þurft að skera niður heildarfjármunina til byggðaáætlunarinnar eins og svo margt annað. Það er auðvitað stefnumörkun að gera það, þ.e. að færa aukið fé sem næst heimabyggð þar sem ákvarðanir eru teknar.

Ég vildi koma hér inn á að hv. þingmaður kallaði eftir og vildi meina að hér væri engin stefnumörkun á ferð af hálfu stjórnarflokkanna, það væri engin sýn á byggðamálin. Ég verð, virðulegi forseti, að fá að mótmæla þessu vegna þess að sýn okkar á byggðamálin felst m.a. í því að draga upp heildarmynd. Það sem hefur staðið byggðamálunum fyrir þrifum er akkúrat það að þessi mynd hefur ekki verið dregin upp. Hvernig ætlum við að gera það? Við ætlum að gera það með því að fá heimamenn og fólk um land allt með okkur í lið.

Hvaða aðferðafræði var beitt? Jú, kallað var til þjóðfunda í hverjum einasta landshluta þar sem heimamenn komu í hundraðavís og lögðu sitt af mörkum við þessa stefnumörkun. Í stað þess að stjórnvöld sætu á háum hesti og tækju ákvarðanir um hvernig fjármunum er varið var farið út í landshlutana og fólkið spurt. Úr því erum við núna að vinna, úr þeim niðurstöðum. Þetta er byggðapólitík, virðulegur forseti, sem ég styð. Þetta er sú byggðapólitík sem stjórnvöld standa fyrir og birtist í vaxtarsamningunum og í vinnubrögðunum við Sóknaráætlun 20/20. Út úr þessu ætlum við að fá kraftmikla landshluta sem við höfum heildarsýn yfir. Við ætlum að fara í heildræna stefnumörkun þar sem fókuserað er á styrkleika hvers landshluta fyrir sig.