138. löggjafarþing — 113. fundur,  27. apr. 2010.

stefnumótandi byggðaáætlun 2010--2013.

521. mál
[21:17]
Horfa

Unnur Brá Konráðsdóttir (S):

Hæstv. forseti. Við ræðum tillögu til þingsályktunar um stefnumótandi byggðaáætlun fyrir árin 2010–2013 en samkvæmt 7. gr. laga um Byggðastofnun, nr. 106/1999, ber iðnaðarráðherra að leggja fyrir Alþingi tillögu til þingsályktunar um stefnumótandi byggðaáætlun. Ég hef verið svolítið hugsi yfir þessari umræðu, hvort þetta sé í rauninni sú áætlun eða hvort verið sé að framselja skyldu iðnaðarráðherra og fela einhverjum öðrum að vinna verkefnið. Ég skil ekki alveg hvernig þetta er lagt upp hjá hæstv. iðnaðarráðherra og ríkisstjórninni þar með. Laganna hljóðan er mjög skýr: Iðnaðarráðherra á að leggja fram byggðaáætlun sem lýsir markmiðum og stefnu ríkisstjórnarinnar í byggðamálum. Í þeirri áætlun á að gera grein fyrir ástandi og horfum í þróun byggðar í landinu.

Ég sé einfaldlega ekki, frú forseti, að plaggið sem liggur frammi uppfylli þetta lagaákvæði og skil þess vegna ekki hvers vegna við ræðum þetta mál. Ef á með þessari tillögu að fela ríkisstjórninni það verkefni að vinna stefnumótandi byggðaáætlun er það í fyrsta lagi andstætt lögum og í öðru lagi algjör óþarfi af því að hæstv. iðnaðarráðherra á einfaldlega að gera byggðaáætlun og leggja hana fram hér fullbúna samkvæmt ákvæðum laganna. Ég hélt, frú forseti, að við þingmenn hefðum næg mál fyrirliggjandi í þinginu og ættum ekki að eyða tímanum í eitthvað sem er ekki fullbúið.

Frú forseti. Það hefur talsvert verið rætt hér hvort eitthvert raunverulegt innihald sé í þessari tillögu að áætlun eða hvort þetta séu einfaldlega nýju fötin keisarans. Ég hef gluggað í þetta til að átta mig á því hvað sé nýtt í þessu og hvað skipti máli. Vissulega er það þannig að í því efnahagsástandi sem verið hefur undanfarnar vikur og mánuði vilja byggðir landsins sjá stjórnvöld koma fram með einhverjar hugmyndir um hvernig sporna eigi við þeirri þróun. Þar af leiðandi hlýtur fólk að bíða spennt eftir því hvernig byggðaáætlun hinnar nýju vinstri stjórnar lítur út en ég held að fólk hljóti að hafa orðið fyrir ákveðnum vonbrigðum. Það er alla vega ekki mjög skýrt hvert planið er. Ég get ekki séð út frá byggðarlagi, tökum t.d. Skaftárhrepp, hvaða áhrif það hefur á sýn þess sveitarfélags og svæðis hvernig stjórnvöld ætla að stuðla að því að byggðin blómstri þar. Ég sé ekki hvernig þetta á að hjálpa mönnum að átta sig á þeirri stöðu.

Auðvitað má deila um hvort stjórnvöld eigi almennt að skipta sér af þessu en lögin eru til staðar þannig að heildstæða byggðaáætlun ber að leggja fram.

Enginn er betri í að koma með tillögur um hvernig efla skal byggð á hverju svæði en heimamenn sjálfir. Það er nú einfaldlega þannig. Ekki á þann hátt að hægt sé að sitja við skrifborð í Reykjavík og teikna upp fríhendis hvernig efla skuli atvinnulífið á landsbyggðinni. Það verður að vinnast í samstarfi við heimamenn. Það er algjörlega ljóst að enginn þekkir sitt svæði betur en íbúarnir þar.

Þegar við ræðum byggðamál er mjög mikilvægt að átta sig á þeirri staðreynd sem komið hefur fram að samgöngumálin eru stærsta byggðamálið. Samfélag sem býr að góðum og greiðum samgöngum er sterkt samfélag. Þess vegna tvinnast samgöngumálin óneitanlega gríðarlega mikið saman við byggðamálin.

Ég hefði haft áhuga á því, frú forseti, að ræða ástand og horfur þróunar byggðar í landinu ef það væri eitthvað um það í þessari þingsályktunartillögu. En svo er ekki.

Ég tel fulla nauðsyn á að gera þingheimi grein fyrir því hvernig byggðin hefur þróast og hver spá ríkisstjórnarinnar er um hvernig hún komi til með að þróast. Þannig væri hægt að átta sig á til hvaða aðgerða þyrfti að grípa til þess að sporna við og þannig gæti ríkisstjórnin sagt okkur hvaða stefnu hún hefur í málinu. En því er ekki að heilsa og þetta ber að gagnrýna.

Ég vil enn og aftur, frú forseti, lýsa undrun minni á því að þessi tillaga til þingsályktunar virðist ekki vera í samræmi við það lagaákvæði sem áætlunin byggir á. Ég velti þeirri spurningu upp við forseta þingsins hvort þetta sé tækt. Það verður væntanlega rætt í nefndinni og ég vonast til að farið verði vel yfir þetta og hlustað á þau sjónarmið sem komið hafa fram í umræðunni. Það er algjör óþarfi að leggja fram það flókin plögg að ekki sé hægt að skilja innihald þeirra. Ég sé ekki tilganginn með því. Það væri hægt að gera þetta á mjög einfaldan hátt og ég er tilbúin til þess að skrifa þetta upp ef einhver biður mig.