138. löggjafarþing — 113. fundur,  27. apr. 2010.

stefnumótandi byggðaáætlun 2010--2013.

521. mál
[21:41]
Horfa

Ásbjörn Óttarsson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hæstv. ráðherra fyrir þessar undirtektir og þær upplýsingar sem hún setur fram. Ég skal draga í land ef hv. þingmönnum og hæstv. ráðherra hefur fundist ég fara óvarlegum orðum um Sóknaráætlun 20/20. Ég bind bara vonir við það og tek orð hæstv. ráðherra mjög alvarlega þegar hún segir að menn ætli að ná utan um þessi mál. Ég fagna því. Ég á hins vegar eftir að sjá það gerast. Þess vegna hef ég velt fyrir mér þegar við erum að ræða þessa þingsályktunartillögu — við erum með samgönguáætlun sem við erum að fara að ræða hér á fimmtudaginn, hvort ekki hefði verið eðlilegra að við hefðum tekið þetta saman í svona kannski nánari vinnu, þ.e. við mundum ekki vera að búa til áætlanir sem rekast hugsanlega á.

Það kemur fram í samgönguáætlun sem ég las hér áðan þar sem menn eru að tala um að markmið með sóknaráætluninni sé að tengja saman byggðarkjarna — ég benti t.d. á Vestfirðina í ræðu minni áðan. Þeir byggðarkjarnar eru ekki tengdir saman. Norðanverðir Vestfirðir eiga miklu meiri samvinnu vestur úr landi og Norðvesturlandi en yfir á suðurhluta Vestfjarða sem eru í rúmlega 100 kílómetra fjarlægð vegna samgöngumála. Þess vegna held ég að við þurfum að taka þessar byggðaáætlanir, og ég legg áherslu á það, út frá því að samgöngubætur séu einna brýnastar á mörgum landsvæðum. Vissulega eru sum landsvæði komin með góðar samgöngubætur en búsetuskilyrði fólks á sunnanverðum Vestfjörðum eru t.d. ekki hin sömu og á búsetuskilyrði fólks í öðrum landshlutum, hvort heldur sem er til að sækja þjónustu eða reka fyrirtæki eða hvernig sem það er, þau búa ekki við sams konar skilyrði, þau búa við miklu erfiðari skilyrði.

Ég fagna því ef Sóknaráætlun 20/20 nær utan um þetta allt saman þannig að þetta rekist ekki hvað á annars horn og markmið byggðaáætlunar (Forseti hringir.) náist.