138. löggjafarþing — 114. fundur,  28. apr. 2010.

þróunarsamvinnuáætlun.

584. mál
[12:50]
Horfa

Fyrirspyrjandi (Þórunn Sveinbjarnardóttir) (Sf):

Frú forseti. Þessi fyrirspurn er þess eðlis að hún hefði allt eins átt heima undir óundirbúnum fyrirspurnum en þar eiga stjórnarliðar stundum erfitt með að komast að af einhverjum ástæðum sem mér eru óskiljanlegar þannig að ég lagði hana fram í formlegum fyrirspurnatíma.

Hún er einföld, hún er til hæstv. utanríkisráðherra. Spurt er hvað líði framlagningu þróunarsamvinnuáætlunar sem hæstv. ráðherra ber að leggja fram, ef ég hef skilið rétt, eigi síðar en á þessu ári. Ný lög um alþjóðlega þróunarsamvinnu Íslands tóku gildi í október árið 2008. Að þeim var mikil lagabót fyrir starfsumhverfi þróunarsamvinnunnar og annað henni tengt hér á landi. Þeim fylgir að leggja skal fram áætlun til fjögurra ára þar sem farið er yfir markmið, stefnumótun og verkefni, ef ég skil lagagreinina rétt.

Mig fýsir að vita hvar þessi vinna er stödd í utanríkisráðuneytinu og hvort þess megi vænta að áætlunin verði lögð fram á yfirstandandi löggjafarþingi og jafnvel hvort hæstv. ráðherra gæti gefið okkur innsýn í efni áætlunarinnar og þá stefnumótun og þau markmið sem þar á að setja. Ég geri mér auðvitað grein fyrir því að plaggið verður lagt fram hér á hinu háa Alþingi og fer til umfjöllunar í utanríkismálanefnd en ég vildi vekja athygli á þessu af því að þetta er nýnæmi í löggjöfinni og ég verð að segja eins og er, frú forseti, að ég hlakka til að sjá áætlunina þegar hún lítur dagsins ljós.