138. löggjafarþing — 115. fundur,  29. apr. 2010.

störf þingsins.

[10:37]
Horfa

Lilja Mósesdóttir (Vg):

Frú forseti. Við erum rétt að byrja að sjá afleiðingar réttindaleysis skuldara. Hræðsla skuldara við að fara í gjaldþrot og sitja uppi með skuldir langt fram yfir líf og dauða fær þá til að samþykkja nauðasamninga á forsendum lánastofnana. Dæmi um þetta gátum við lesið í Morgunblaðinu í morgun.

Réttindaleysi skuldara stafar ekki síst af hræðslu okkar sem sitjum á Alþingi við að ganga á eignarrétt lánveitenda, hræðslu sem er yfirsterkari réttlætiskennd fólks sem lent hefur í fjármálahamförum. Ekkert tillit má taka til þess að hér hefur heilt bankakerfi hrunið, skuldarar eiga bara að halda áfram að greiða af stökkbreyttum lánum og ef það gengur ekki missa þeir eignirnar frá og með október og eftirstæðar skuldir fylgja þessu fólki jafnvel fram á grafarbakkann.

Frú forseti. Nú liggur fyrir þinginu frumvarp sem ég er flutningsmaður að um að allar skuldir þeirra sem verða gjaldþrota fyrnist á fjórum árum. Ég hvet þingið til að afgreiða þetta frumvarp á yfirstandandi þingi til að tryggja sanngjarna meðferð skuldara nú þegar bankarnir þurfa að taka um 70% fyrirtækja í fjárhagslega endurskipulagningu og nú þegar um 40% heimila sem eiga eigið húsnæði eru komin með neikvæða eiginfjárstöðu og eru í raun í eigu lánastofnana.

Frú forseti. Það er orðið brýnt að Alþingi standi vörð um skuldug heimili. (Gripið fram í: Heyr, heyr.) Hrægammarnir bíða í röðum og það er erfitt fyrir réttindalítið fólk að verjast árás þeirra. (Gripið fram í: Heyr, heyr.)