138. löggjafarþing — 115. fundur,  29. apr. 2010.

störf þingsins.

[10:58]
Horfa

Björn Valur Gíslason (Vg):

Forseti. Ég þakka hv. þm. Árna Johnsen fyrirspurnina þó að ég þekki það mál ekki sem hv. þingmaður nefndi hér sérstaklega, hann vitnaði til í blaðagrein sem birtist í dagblaði í morgun. Hvað það varðar get ég tekið undir það, ég náði því að renna yfir fyrstu setningarnar í þeirri grein áður en fyrirspurnin barst, og miðað við þær lýsingar sem hv. þingmaður gefur á framgangi þess máls má hafa mörg orð um það og ekki öll falleg. En ég treysti mér ekki til að taka afstöðu til einstakra mála úr þessum stól án þess að hafa kynnt mér þau betur.

Þessi mál hafa ekki sérstaklega verið rædd í samgöngunefnd að undanförnu. Það var lítillega rætt um skuldastöðu bænda í nefndum þingsins hér á haustdögum en þetta hefur ekki verið rætt sérstaklega í samgöngunefnd varðandi sveitarstjórnarmál. Kannski er orðin full þörf á því að taka þau fyrir í þeirri nefnd sem og öðrum nefndum þingsins.

Það hafa auðvitað verið uppi sögusagnir um að fulltrúar bankanna gangi hér um sveitir og bjóði bændum „uppgjör“ og uppstokkun á skuldamálum sínum og að þeir vilji ráðast í einhverja uppstokkun, að bankarnir ætli sér að loka skuldugustu búunum. Um þetta ganga sögusagnir sem mér finnst rétt að leita eftir svörum við hvort er einhver fótur fyrir. Skuldastaða bænda er þung, við vitum það, rétt eins og margra annarra atvinnufyrirtækja í landinu. Bankarnir verða að sjálfsögðu að haga sér sómasamlega gagnvart þeim eins og öllum öðrum. Síðast í morgun vorum við í sjávarútvegs- og landbúnaðarnefnd að ræða um meðferð skulda sjávarútvegsfyrirtækja. (Forseti hringir.) Þar kom fram hjá fulltrúum banka og fjármálafyrirtækja að markmið fjármálafyrirtækja væri það eitt, þegar atvinnufyrirtæki kæmi í þeirra hendur, að hámarka afrakstur fyrirtækisins, þ.e. fjármálastofnunarinnar. (Forseti hringir.) Það væri númer eitt að gera það en ekki huga að öðrum þáttum. (Forseti hringir.) Þessu verðum við að breyta.