138. löggjafarþing — 115. fundur,  29. apr. 2010.

samgönguáætlun fyrir árin 2009-2012.

582. mál
[11:33]
Horfa

Höskuldur Þórhallsson (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Það er eitt sem veldur mér smááhyggjum í þessari áætlun. Ég get ekki séð að Vaðlaheiðargöng séu þar sérstaklega inni. Þau eru verkefni sem á að fjármagna sérstaklega en ekki er útskýrt hvernig á að fjármagna þau nema með einhvers konar veggjaldi. Umræða er komin afar skammt á veg og mig langar þess vegna til þess að spyrja hæstv. samgönguráðherra nánar út í það.

Svo er annað sem veldur mér líka áhyggjum og það varðar þessa sérstöku fjármögnun sem er tiltekin bygging samgöngumiðstöðvar við Reykjavíkurflugvöll.

Síðan kemur fram hér á bls. 34:

„Ljóst er að til að ráðast í stórframkvæmdir, þar með talið þær sem taldar voru hér að framan, án aukinnar skuldsetningar ríkissjóðs, verður að taka upp notendagjöld.“

Stendur til að fjármagna uppbyggingu samgöngumiðstöðvar með einhvers konar notendagjöldum? (Forseti hringir.) Ég vona að það sé ekki raunin vegna þess að þetta eru gjöld og skattur sem (Forseti hringir.) mun leggjast fyrst og fremst á landsbyggðarfólk.