138. löggjafarþing — 115. fundur,  29. apr. 2010.

samgönguáætlun fyrir árin 2009-2012.

582. mál
[11:36]
Horfa

Höskuldur Þórhallsson (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Það er reyndar margt fleira sem veldur mér áhyggjum í þessari samgönguáætlun en þau dæmi sem ég tók áðan, bara svo að það sé leiðrétt.

Ég vil líka vekja athygli á því að það er eitt að fara út í einkaframkvæmd og gott að það er hægt að fá lífeyrissjóðina. Þar með er ekki sagt að taka eigi gjöld, hvort sem um er að ræða einhvers konar veggjöld eða notendagjöld, það er nýtt í þessari umræðu, sérstaklega varðandi samgöngumiðstöð. Þess vegna spyr ég: Stendur til að skattleggja þá sem nýta sér hana? Það er náttúrlega fyrst og fremst landsbyggðarfólk sem gerir það, eins og hæstv. samgönguráðherra veit mjög vel. Þá erum við að tala um aukaskatt á það fólk sem þarf vinnu sinnar vegna að sækja þjónustu til höfuðborgarvæðisins.

Varðandi Vaðlaheiðargöng finnst mér eins og hæstv. samgönguráðherra sé á hröðu undanhaldi. Það var talað um „fifty/fifty“, það var talað um hóflegt veggjald, um 500 kr. Það mundu íbúar svæðisins greiða til þess að fara í gegnum göngin. En hvað erum við að tala um núna? Getur verið að kosningaloforð hæstv. samgönguráðherra, (Forseti hringir.) gjaldfrjáls Vaðlaheiðargöng strax, sé nú gjörsamlega farið veg allrar veraldar?