138. löggjafarþing — 115. fundur,  29. apr. 2010.

samgönguáætlun fyrir árin 2009-2012.

582. mál
[12:12]
Horfa

Sigurður Ingi Jóhannsson (F):

Virðulegi forseti. Ég vil byrja á að taka undir það sem menn hafa rætt um stuðning við dreifðustu og smæstu byggðir landsins. Það er mikilvægt að tryggja grunnþjónustu, lágmarksþjónustu um land allt, og ekki síst á þeim tímum þar sem fjármagn sem menn ætluðu til samgönguverkefna hefur gufað upp. Þá er rétt að fara yfir það hvaða grunnþjónustu þarf að tryggja og síðan hvaða verkefni er hægt að fara í. Við getum örugglega öll, þingmenn hér inni, fundið einhver verkefni og jafnvel fjölmörg, ekki síst í þeim kjördæmum sem við erum kjörin úr, sem við vildum gjarnan sjá að væru á fjögurra ára áætluninni.

En það er líka rétt að byrja á því að þakka það sem vel hefur verið gert í samgöngumálum. Á síðustu árum og áratugum hefur mjög margt verið gert og við höfum náð miklum árangri en við þurfum líka að gera það því að við búum í gríðarlega stóru landi með miklum samgöngumannvirkjum, hvort sem það eru vegir, hafnir eða flugvellir.

Ég ætla að reyna að nota þann stutta tíma sem ég hef til að ræða nokkra hluti og byrja á að renna hratt yfir þau góðu markmið sem eru fremst í ályktuninni og hæstv. samgönguráðherra fór yfir í upphafi máls síns. Ég sakna þess þó að í þeim markmiðum, til að mynda markmiðum í hagkvæmni og uppbyggingu í rekstri samgangna, er til að mynda ekkert fjallað um umferðarþungann. Hann hlýtur að vera í beinu samhengi — reksturinn hlýtur að verða betri og arðsemin því meiri sem umferðin um vegina er, það er ekkert minnst á það. Ég tek reyndar undir d-liðinn þar sem talað er um að leitað verði ódýrari leiða til að leggja bundið slitlag á umferðarlitla vegi. Það getur verið áhugavert til að minnka þjónustu eða viðhald í framtíðinni en getur skipt þá íbúa miklu máli sem þurfa að nýta þá.

Í kafla 1.4, um markmið um öryggi í samgöngum, er heldur ekkert minnst á umferðarþungann sjálfan. Hann gerir það að verkum að það skapast öryggisvandamál, því meiri umferð því meiri hætta á slysum og því meiri krafa er gerð til mannvirkjanna.

Það er eitt markmið sem ekki er í samgönguáætluninni, sem hefur þó verið talað um í markmiðum ríkisstjórnarinnar og í þeim verkefnum sem menn hafa verið að tala um, og það er sem sagt markmið um mannaflskrefjandi verkefni, verkefni sem menn geta farið í, sem menn þurfa að nýta mikið af mannskap í, til þess m.a. að minnka atvinnuleysi á landinu. Á Suðurlandi áttum við ágætisfund fyrr í vetur þar sem verkalýðshreyfingin á Suðurlandi kallaði okkur, þingmenn Suðurlands, til og fór yfir fjölmörg verkefni, ekki síst á sviði samgangna og reyndar annarrar mannvirkjagerðar. Á þeim fundi lýsti ég því yfir að á þeim glærum sem verkalýðshreyfingin sýndi — og stjórnarþingmenn töldu jafnvel að fjölmörg störf væru inni — værum við aðeins að tala um 40–50 ný störf og þau tengdust Búðarhálsvirkjun. Allt annað voru störf sem voru þá í gangi og ber að þakka það, þau verkefni sem þar eru í gangi, eins og Landeyjahöfn, Hvítárbrú og Lyngdalsheiði og slíka hluti, en það voru einu nýju verkefnin.

Ég nefndi þar tillögu um að fara í það verkefni að útrýma einbreiðum brúm, sem eru til að mynda 22 í Austur-Skaftafellssýslu eða á leiðinni Austur- og Vestur-Skaftafellssýslu. Ég held að ég hafi fundið að það séu þó settir peningar í tvær þeirra, ráðherra leiðréttir mig ef það er rangt hjá mér. Það er þakkarvert en ég sé ekkert markmið um að fara í slík verkefni. Í því samhengi væri líka rétt að nefna Hornafjarðarfljót eða brúna þar og vegaframkvæmdirnar. Þær eru ekki á þessari fjögurra ára áætlun og það væri áhugavert að sjá það.

Á sama hátt, í sambandi við mannaflskrefjandi verkefni, er Suðurstrandarvegur, þ.e. einn áfangi hans, ætlaður til útboðs á þessu ári og væri áhugavert að heyra frá ráðherranum hvort til standi að það verði gert á næstu vikum þannig að líklegt verði að einhverjar framkvæmdir verði á þessu ári. Síðan er áætlað meira fjármagn til þess á næsta ári og 2012 en það eru ekki mörg verkefni sem munu verða til að minnka atvinnuleysið á þessu ári, ekki nein ný verkefni.

Síðan er það Suðurlandsvegurinn. Ég ætla að nota tækifærið og fagna því að hann var boðinn út og það er búið að opna tilboðin þar. Þá er kannski rétt að spyrja hæstv. ráðherra út í það hvort ekki sé öruggt að í þá framkvæmd verði farið á næstu vikum þegar búið verður að fara yfir útboðsgögn þannig að það verði þá alla vega nýtt verkefni sem verður til þess að einhver störf skapist, og þá er ég að tala um þetta kjördæmi.

Ef við lítum á aðra þætti kemur það fram í þessari ályktun að lítið fé er til skiptanna og það kemur fram í bæði hafna- og flugáætlunum og í vegáætluninni líka eins og ég hef aðeins verið að tæpa á. Ég ætla þó að fagna því líka að til stendur að fara í sjóvarnargarðinn við Vík í Mýrdal, búið að tryggja fjármagn þar á þessu ári og því næsta þannig að það er vonandi að það fari af stað í haust. Ég vænti stuðnings ráðherra við það verkefni. Ég veit að það á eftir að klára ákveðin skipulagsmál heimamanna þar en heimamenn þurfa væntanlega stuðning ráðuneytisins þegar því er lokið þannig að verkefnið fari af stað. Ég sé því ekki að það verði kannski mikið af nýjum verkefnum í Suðurkjördæmi á þessu ári fyrir utan það sem ég nefndi.

Aðrir þættir sem mig langar að nefna á þessum stutta tíma eru um þessa sérstöku fjármögnun og þau veggjöld sem menn hafa verið að ræða, að hugsanlega sé hægt að setja kubba í bíla og einhverjar tæknilausnir — ég vil taka þá umræðu að við þurfum að setja okkur einhverja pólitíska stefnumótun í því augnamiði. Við megum ekki elta tæknina. Þó að tæknin sé bæði skemmtileg og geti leyst vandamál þá á hún ekki sjálf að stýra okkar pólitísku stefnumótun. Við getum horft upp á það í allt öðrum greinum að á næstu árum verði möguleikar á að klóna fólk. Ég býst ekki við að við eltum tæknina þangað og ég býst ekki við að nokkur hér inni sé tilbúinn til að fara þá leiðina og allir mundu hafna því.

Við gætum líka sett örmerki í fólk með GPS-staðsetningartækjum, það er ekki langt í það, en ég býst heldur ekki við að við séum tilbúin til þess. Þá þurfum við að svara því hvort við séum tilbúin að setja kubba í bíla með GPS-staðsetningartækjum sem séu tilbúnir að mæla fólk með þessum hætti. Það er pólitísk stefnumótum sem við þurfum að taka. Við megum ekki bara elta hina flottu tæknilegu lausn. Þess vegna er þetta umræða sem við þurfum að fara vandlega í á grundvelli hinnar pólitísku stefnumótunar en ekki á grundvelli tækninnar. Ég held að það sé mjög mikilvægt og lærdómur sem við hefðum átt að draga af síðustu árum þar sem við höfum síðustu áratugina horft á tæknilegar lausnir en kannski gleymt hinu pólitíska siðferði og slíkum hlutum.

Síðan er einn þáttur sem lítið fer fyrir en mig langar að ræða aðeins. Það eru girðingar meðfram vegum. Um landið allt þekkjum við að það eru mismunandi reglur um lausagöngu búfjár og það eru mismunandi girðingar meðfram vegunum en það eru mismunandi reglur í landshlutunum um það með hvaða hætti Vegagerðin kemur að, að því er virðist, viðhaldi og uppsetningu á þessum girðingum og hvort menn eigi þess kost að fá fjármuni til viðhalds og endurbóta. Það er mjög mikilvægt að þessum girðingum sé haldið við og það er mikið öryggisatriði. Ég vil hvetja hæstv. ráðherra til að setja í gang einhverja rannsókn á því með hvaða hætti þetta er gert, með mismunandi hætti um landið. Sums staðar hafa sveitarfélögin nánast verið skikkuð til samráðs eða samvinnu og þau jafnvel lent í því að fara að smala vegina eða eitthvað slíkt og það er þá spurningin hver veghaldarinn er, og jafnvel á hringvegi 1, en svo er það í næstu sýslu eða næsta landshluta gert með allt öðrum hætti.

Að lokum langar mig að nefna einn þátt sem kom fram í síðustu samgönguáætlun. Talað var um að sveitarfélög gætu hugsanlega tekið yfir vegi frá Vegagerðinni, veghaldara, uppbyggingu þeirra og jafnvel frá upphafi. Mér hefur sýnst þetta hafa verið gert á þann veg, og ég þekki dæmi til þess, að Vegagerðin, ríkisvaldið, hefur einhliða ákveðið að færa ákveðna vegi yfir til sveitarfélaganna án nokkurs samráðs við sveitarfélögin sem þau síðan sitja uppi með. Stundum ónýta vegi sem þurfa mikið af fjármunum, stundum vegi sem vantar alveg fjármagn í til að byggja upp en hafa verið inni á áætlunum. En ég hefði líka talið að við ættum í þessari þingsályktunartillögu til fjögurra ára, þar sem við höfum lítið af fjármunum, að einbeita okkur að slíkum verkefnum af því að við erum sannarlega ekki að deila út fé til hægri eða vinstri.