138. löggjafarþing — 115. fundur,  29. apr. 2010.

samgönguáætlun fyrir árin 2009-2012.

582. mál
[13:02]
Horfa

Einar K. Guðfinnsson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Mér fannst það vera hálfgerður misskilningur hjá hv. þm. Þórunni Sveinbjarnardóttur að þessi umræddi vegur um Þorskafjörð, yfir Gufufjörð og Djúpafjörð hafi ekki farið í umhverfismat. Hann fór í umhverfismat og að baki því lágu áralangar rannsóknir þar sem hver einasti fugl á svæðinu hafi verið skoðaður og allar marflærnar taldar þannig að ég held að ekkert hafi vantað upp á. Síðan fór málið hins vegar í kæruferli. Þáverandi hæstv. umhverfisráðherra felldi síðan úrskurð sem var mjög vel undirbúinn, mjög vel rökstuddur og vék nokkuð frá upphaflegum hugmyndum Vegagerðarinnar til að koma til móts við umhverfisleg sjónarmið sem voru sett fram. Það dugði ekki heldur var kært fyrir dómstólum. Fyrst fór málið í héraðsdóm þar sem úrskurði hæstv. ráðherra var hafnað á tilteknum forsendum. Málinu var áfrýjað til Hæstaréttar og þar sem málinu var hafnað á öðrum forsendum en þeim sem höfðu fallið í héraðsdómi. Sagt var að ekki mætti taka tillit til umferðaröryggis eins og gert var í úrskurði hæstv. þáverandi umhverfisráðherra sem er dálítið sérkennilegt vegna þess að hv. þm. Þórunn Sveinbjarnardóttir sagði réttilega: Öryggismálin eru grundvallaratriði. Mér finnst málin á þessu svæði vera komin í algert uppnám.

Það sem vakti fyrir mönnum að fara ekki veginn um Ódrjúgsháls og Hjallaháls var að gera veg sem væri fær allt árið um kring og að tryggja umferðaröryggi. Nú er búið að stilla málum þannig upp að við komumst hvorki lönd né strönd nema farið verði með veginn upp á þessa hálsa sem allir sem þekkja til eru á móti. Þetta er andstyggilegt í þessari stöðu og ég sé ekki hvernig hægt er að breyta þessu nema Alþingi taki ákvörðun um að heimila þessa vegagerð með lögum eða einhverjum öðrum hætti. Að öðrum kosti erum við föst í dýinu og komumst hvorki lönd né strönd.