138. löggjafarþing — 115. fundur,  29. apr. 2010.

samgönguáætlun fyrir árin 2009-2012.

582. mál
[14:20]
Horfa

Róbert Marshall (Sf) (andsvar):

Virðulegur forseti. Eins og staðan er núna ætti að vera hægt að opna höfnina um miðjan júlí en það gæti breyst og liggur ekki fyrir þannig að hægt sé að fastnegla það.

Varðandi Grænásgatnamótin er það rétt munað hjá hv. þingmanni að febrúar var dagsetning sem miðuð var við útboð þannig að menn gætu hafið malbikun þegar færi að vora. Það hefur dregist og það er miður en hins vegar er það svo að í þessari áætlun er gert ráð fyrir 60 milljónum á þessu ári og svo öðrum 80 milljónum á því næsta þannig að við sjáum fram á úrbætur á þessum hættulegu gatnamótum og er það að þakka þverpólitískri samstöðu þingmanna Suðurkjördæmis sem náðist um þetta brýna mál. Skýringar á seinkuninni kann ég ekki en við erum að fjalla um heilan graut af framkvæmdum sem allar eru aðeins á skjön við þær áætlanir sem í upphafi voru gerðar vegna ástandsins í samfélaginu og geri ég ráð fyrir að þær falli líka undir það.

Ég sé enga aðra leið til að fjármagna framkvæmdirnar sem eru til viðbótar og eiga að auka umferðaröryggið en þær sem ég nefni með þessu svokallaða umferðargjaldi og því kerfi sem ég nefndi. Að sjálfsögðu er ég reiðubúinn að heyra hugmyndir hv. þingmanns í þessum efnum og hvet einfaldlega þingmenn alla til að koma fram með hugmyndina um hvernig megi fjármagna þær framkvæmdir sem við erum öll sammála um að séu brýnar til að auka umferðaröryggi. Þetta er ákveðin leið til að tryggja að við getum ráðist í að tvöfalda t.d. allan Suðurlandsveg austur fyrir Selfoss og t.d. Vesturlandsveg upp í Borgarnes. Það er fagnaðarefni að fá hugmyndir um hvernig væri hægt að finna fjármuni í þessi brýnu verkefni.