138. löggjafarþing — 115. fundur,  29. apr. 2010.

samgönguáætlun fyrir árin 2009-2012.

582. mál
[15:48]
Horfa

Ragnheiður Ríkharðsdóttir (S) (andsvar):

Frú forseti. Ég þakka enn og aftur hæstv. ráðherra fyrir svörin. Ég get deilt þeirri skoðun minni með honum að hugsanlega megi skoða og velta fyrir sér Arnarnesveginum, hvort hann eigi að vera 2+2 eða 2+1. Ég dreg hins vegar í efa að flutningsgetan 1+1 nægi á þessu svæði, en allt er skoðunarinnar virði í ljósi þess að hægt sé að fara í verkefnið og ljúka því án þess þá að ganga út frá því sem vísu að engra breytinga sé þörf í náinni framtíð. En þetta mun hæstv. samgönguráðherra sjálfsagt gera í samkomulagi við heimamenn og fleiri sveitarfélög í Suðvesturkjördæmi sem þarna koma að og það skiptir máli. Fyrir utan það er umferðin þarna oft og tíðum, og það þekkir hæstv. ráðherra, gífurleg á ákveðnum álagstímum og þar af leiðandi er öryggi bifreiðaeigenda og annarra kannski ekki eins tryggt sem skyldi.

Hæstv. samgönguráðherra talaði um félagslega hagfræði. Ég fagna því að innan áætlunargerðar séu sem flestir þættir mannlegs lífs teknir inn þegar vega á og meta hagkvæmni og arðsemi. Það er alveg ljóst að hér á landi þar sem búa 320 þúsund manns mun hin svokallaða félagslega hagfræði án efa ekki skipta síður máli en margar aðrar (Forseti hringir.) tegundir þeirrar fræðigreinar.