138. löggjafarþing — 115. fundur,  29. apr. 2010.

samgönguáætlun fyrir árin 2009-2012.

582. mál
[15:51]
Horfa

Siv Friðleifsdóttir (F):

Virðulegur forseti. Ég leit aðeins inn á fjölmiðlana áðan og þá sá ég að þar var verið að fjalla um umræðuna sem hér fer fram um samgönguáætlun og yfirskriftin var eitthvað á þá leið: Höfuðborgarsvæðið tekst á við landsbyggðina. Mér fannst þetta svolítið merkilegt, af því að ég hef ekki upplifað þá umræðu á þann veg. Mér finnst fólk einmitt sýna mikinn skilning bæði af höfuðborgarsvæðinu til landsbyggðarinnar og öfugt. Ég tel að umræðan hafi ekki einkennst af einhverju gríðarlegu kjördæmapoti, mér finnst það ekki. Það er bara svo að þingmenn vita auðvitað mest um sín svæði og hafa miklar upplýsingar þar, enda er fundað sérstaklega um vegamál í hverju kjördæmi fyrir sig á meðal þingmanna, en auðvitað höfum við líka áhuga á því sem er í öðrum kjördæmum.

Hér voru nefnd áðan tvö stórverkefni úti á landi, tvenn jarðgöng; Bolungarvíkurgöngin og Héðinsfjarðargöngin. Ég man eftir því að á sínum tíma flutti Sverrir Sveinsson, sem þá var þingmaður Framsóknarflokksins, tillögu um Héðinsfjarðargöng. Það var skoðað og menn komust að því að rétt væri að fara í framkvæmdina. Mig minnir að nánast allir hafi verið sammála um að það væri framkvæmd sem þyrfti að fara í og hún er að verða að veruleika núna, ég held að vígja eigi þau göng 2. október. Þau verða auðvitað gríðarlega mikil lyftistöng fyrir Norðausturkjördæmi en líka fyrir alla landsmenn. Allir landsmenn munu nota þessi göng og eins Bolungarvíkurgöngin á ferðalögum sínum. Ég held að þetta hangi allt saman. Við getum ekki horft mjög þröngt á hlutina, virðulegur forseti. Ef aðeins ætti að skoða hvað væri best í krónum og aurum talið, ætli við byggjum þá ekki öll á einum stað á Íslandi? Ætli við byggjum ekki á öll Austurlandi því að þaðan er styst til Evrópu og værum svo með einhverjar útstöðvar til að sinna landbúnaði og einhverri orkuöflun o.s.frv. og sjávarútvegi svona hér og þar? Ég held þetta gæti verið allt öðruvísi ef við hugsuðum alltaf algjörlega um krónur og aura, virðulegur forseti.

Ég tek undir með þeim sem hafa sagt að það sé mikilvægt að bæta aðstöðuna á Vestfjörðum, bæta samgöngur þar. Vestfirðingar liggja óbættir hjá garði, það er bara þannig, sérstaklega á sunnanverðum Vestfjörðum. Það eru ýmsar ástæður fyrir því sem hafa verið tilgreindar hér og ég held að nú sé komið að því að við förum að líta verulega til Vestfjarða, sunnanverðra Vestfjarða, og þetta segi ég þó að ég komi ekki úr því kjördæmi.

Við Íslendingar keyrum almennt frekar mikið um okkar vegi og þeir eru auðvitað gríðarlega mikilvægir. Reyndar hefur aðeins dregið úr akstri á vegum landsins núna vegna bankahrunsins og efnahagskreppunnar. Olíuverð er alveg gríðarlega hátt og það hefur hækkað mikið og menn vilja eitthvað spara við sig í því. En við keyrum mikið og það er auðvitað af því vegirnir eru frekar góðir, við erum alltaf að bæta þá og bílarnir hafa líka batnað. Svo vil ég nefna að með tilkomu tækninnar sem gerir okkur kleift að tala í GSM-síma held ég að fólk keyri líka talsvert miklu meira, það getur nýtt tímann á langkeyrslu til að tala í síma og líka afgreitt mál og unnið. Ég held því að bíllinn sé að hafa talsvert betur í samkeppninni við flugið m.a. vegna tilkomu GSM-símanna.

Virðulegur forseti. Í þingsályktunartillögunni er sagt frá ástæðu þess að lögð er fram svona samgönguáætlun og til að undirstrika mikilvægi hennar er líka sagt að ríkisstjórnin ætli að móta heildstæða stefnu fyrir Ísland í þágu atvinnulífs og samfélags. Sú heildstæða áætlun heitir sóknaráætlun fyrir Ísland og nú vitna ég beint í textann, virðulegur forseti: „Með sóknaráætlun er gert ráð fyrir samþættingu opinberra áætlana.“

Það á sem sagt að samþætta opinberar áætlanir og gert er ráð fyrir því að sú samþætting og samræmda forgangsröðun liggi fyrir í haust og geti þar af leiðandi eitthvað breytt tímasetningum og röðun framkvæmda í samgönguáætlun. Mig langar að ræða þetta aðeins við hæstv. samgönguráðherra, því að mér finnst stórsnjallt að vera með áætlanir, samgönguáætlun er ein, áætlun um nýtingu orku er önnur, svokölluð rammaáætlun, og það á sem sagt að samþætta slíkar áætlanir í eina sóknaráætlun. Þannig skil ég textann. Fyrir mér hljómar þetta mjög líkt og hugmyndafræðin í landsskipulagi, sem ég reyndar styð. Ég er stuðningsmaður þess að við höfum einhvers konar landsskipulag á Íslandi en þetta hefur verið svolítið umdeilt atriði. Mér finnst sveitarfélögin hafa svolítið misskilið það mál, því miður, og talið að þar væri um einhverja valdagræðgi af hálfu ríkisins að ræða, það mundi bara rífa allt vald af sveitarfélögunum og landsskipulagið tæki að miklu leyti yfir hlutverk sveitarfélaga. Ég held það sé nauðsynlegt, virðulegur forseti, að vera með svona samþættingu áætlana, hvort sem það heitir landsskipulag eða sóknaráætlun. Fyrir mér skiptir það engu máli, en ég held að samþætta verði þessar áætlanir af því að það sem felst í samgönguáætlun og rammaáætlun um nýtingu orku, fallvatna og jarðvarma, liggur þvert á sveitarfélög. Það verður að vera einhver heildarsýn í þessu, virðulegur forseti.

Þetta leiðir mig svolítið að umræðunni um hálendið, af því að þar hafa skipulagsmál verið í svolítilli togstreitu má segja. Sveitarfélögin hafa skipulagsvald á hálendinu að mestu leyti en þó er þar líka svokölluð samvinnunefnd um skipulag miðhálendisins sem hefur hlutverki að gegna. Ég vil nefna eitt dæmi sem er uppbyggður Kjalvegur, sem ekki er fjallað neitt sérstaklega um í þessari áætlun, það er mál sem var talsvert í umræðunni á sínum tíma og ég hef miklar efasemdir um. Ég tel að við verðum að líta á landið í heild og gera eitthvert heildarplan en vera ekki með svona hugmyndir eins og t.d. um uppbyggðan Kjalveg sem ég hef miklar efasemdir um. Við verðum að líta til lengri tíma í meiri áætlanagerð almennt á Íslandi, og ég hef sjálf flutt þingsályktunartillögu um landnýtingaráætlun fyrir ferðaþjónustu á miðhálendinu. Í dag eru 42% landsins svokölluð ósnortin víðerni og við þurfum aðeins að huga að því hvernig við ætlum að nýta þau ósnortnu víðerni sem eru verða sífellt verðmætari m.a. gagnvart ferðaþjónustunni.

Í þessari áætlun er líka dregið fram að markmið hennar er að gera umferð almenningssamgangna greiðari, sem sagt meiri almenningssamgöngur. Ég tek undir það. Ég tel að skoða þurfi betur hvernig efla eigi strætisvagnakerfið svo það verði nýtt betur, taka hugsanlega upp lestarsamgöngur til framtíðar og efla almennt almenningssamgöngur. Ég held að þurfi mikinn áróður í þessu sambandi og reyndar líka gagnvart lið b í markmiðunum, þ.e. að efla reiðhjólanotkun, eins og stendur hér, virðulegur forseti, með markvissri uppbyggingu reiðhjólastíga. Ég er alveg sammála því, en ég tel að hægt sé að ná miklu meiri árangri með meiri opinberum áróðri, og þá á ég við áróður í jákvæðri merkingu. Það er ekkert mál að hjóla innan höfuðborgarsvæðisins í heildina tekið. Maður spyr sig af hverju allir eru ekki meira og minna á hjóli. Af hverju ekki? Það er hægt. Sú sem hér stendur hjólar í vinnuna núna reglulega, þetta er ekkert mál, lítið mál. Auðvitað eru einhverjar götur mjög þungar og kannski erfitt fyrir krakka að hjóla á þeim og þeir mega það alls ekki en fyrir fullorðið fólk er þetta lítið mál, virðulegur forseti. Meira en 50% Dana hjóla til vinnu. Mér finnst þetta stórmerkileg tala, að meira en 50% Dana hjóli til vinnu. Ég velti því fyrir mér af hverju við á höfuðborgarsvæðinu setjum okkur ekki einhver markmið og bara með skipulögðum upplýsingum náum því markmiði. Það er ótrúlegt hve fáir hjóla núna þó að þeim hafi reyndar fjölgað. En samt, við komumst ekki með tærnar þar sem Danir eru með hælana.

Hér hefur verið mikil umræða um gjaldtöku, hvort taka eigi upp nýja tækni og menn greiði eftir notkun og þá verður fylgst með hvert bílarnir fara o.s.frv. Mér finnst þetta mjög lokkandi hugmyndafræði. Þá eru þetta eins nokkurs konar þjónustugjöld. Þeir borga sem nýta o.s.frv. Ég hræðist ekki þessa tækni og sé ekki skrattann í hverju horni í því, við hefðum alveg eins getað sleppt því að taka upp GSM-símana því að þar er hægt að rekja símtöl o.s.frv. Ég held að það sé alveg hægt að koma í veg fyrir það að menn misnoti upplýsingar af þessu tagi. (Forseti hringir.) Þannig að í heildina séð er ég bara frekar sátt við þá samgönguáætlun sem nú liggur hér til umræðu.