138. löggjafarþing — 115. fundur,  29. apr. 2010.

samgönguáætlun fyrir árin 2009-2012.

582. mál
[16:30]
Horfa

samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra (Kristján L. Möller) (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Hv. þingmaður talar um að útboðið á Vestfjarðavegi hafi tafist. Það er rétt, vegna hrunsins, við sátum í þeirri ríkisstjórn og þurftum að stoppa öll útboð. Það fór hins vegar í gang í janúar/febrúar árið 2009 og sem áhersluatriði var það þessi kafli sem við erum að vinna núna, hann var fyrsta útboðið og við hann er unnið núna.

Hv. þingmaður nefndi hér einn þátt sem ekki hefur verið mikið rætt um í dag, ég þakka honum fyrir það þó að það sé í lok umræðu, þ.e. viðhald og annað slíkt. Það er alveg ljóst að við þurfum að skera niður í því. Við skárum niður á síðasta ári og það lítur út fyrir að við þurfum að skera aftur niður um 10%. Þá kemur það niður á viðhaldi og þjónustu, það er alveg hárrétt. En við skulum líka gera okkur grein fyrir því, virðulegi forseti, að þessir liðir hafa verið vanfjármagnaðir í mörg ár. Það var hins vegar, að mig minnir, í fyrra að við færðum til peninga og losuðum út eina 900 millj. kr. skuld í vetrarþjónustuliðnum hjá Vegagerðinni þar sem var fært til, sem kom honum á núll.

Hv. þingmaður er mikill áhugamaður um miklar framkvæmdir og það er vel. Hér hefur verið rætt um stórátak í framkvæmdum og ég tók eftir að hv. þm. Tryggvi Þór Herbertsson svaraði afdráttarlaust á um það hér áðan, og ég þakka fyrir það enn einu sinni. Mig langar að spyrja hv. þingmann hvort hann styðji það ekki að við förum í þetta stóra átak sem verið er að tala um með lífeyrissjóðspeningum. Ef við förum í það þá losnar um fé eins og á Suðurlandsvegi og Vesturlandsvegi, ef þetta fer í einkaframkvæmdarverk, en á bls. 31 stendur: „Þeim fjármunum sem losna við ákvörðun um þær framkvæmdir verður ráðstafað til framkvæmda á landsbyggðinni.“ Mig langar að spyrja hv. þingmann í lokin: Er hann ekki stuðningsmaður fyrir miklum framkvæmdum?

Ég átta mig á því núna að hv. þingmaður er búinn með tíma sinn.