138. löggjafarþing — 115. fundur,  29. apr. 2010.

stjórn fiskveiða.

370. mál
[17:14]
Horfa

Ásbjörn Óttarsson (S):

Virðulegi forseti. Við ræðum hér lög um stjórn fiskveiða, eða svokallað strandveiðifrumvarp. Ég verð að segja það í upphafi máls að það veldur mér miklum vonbrigðum, svo ég taki nú ekki dýpra í árina, að hæstv. sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra geti ekki svarað því núna við lokaafgreiðslu málsins hvernig hann hyggst hafa svæðaskiptinguna. Það eru í raun og veru ótrúleg vinnubrögð, algjörlega ótrúleg, að það liggi ekki fyrir og hann geti ekki þessum sjálfsögðu spurningum svarað þingmanna, af því að látið er liggja að því að það standi hugsanlega til að breyta svæðaskiptingunni. Það er algjörlega óskiljanlegt af hverju hæstv. ráðherra getur ekki svarað þessum spurningum, sem mér finnst vera mjög eðlilegt að hann svari. Það sem gerist þegar andrúmsloftið er svona, þá fara alls konar sögur af stað. Ég er búinn að fá fullt af hringingum frá fjölda manna sem segjast hafa áreiðanlegar heimildir fyrir þessu og hinu. Þetta þekkjum við allt saman. Þetta er því algjörlega óskiljanlegt og óþolandi í raun og veru. Margir hafa fullyrt við mig, og segjast hafa fyrir því mjög áreiðanlegar heimildir, að svæðinu verði t.d. skipt við Öndverðarnes, en það mundi skipta sveitarfélagi upp í parta. Ég hef reyndar hafnað þessu alveg og sagt.: „Þetta er svo vitlaust að þetta kemur ekki til greina.“ En ég fæ samt ekki svör við þessu til að ég geti sagt við viðkomandi aðila: „Þetta er hlutur sem hæstv. ráðherra er ekkert að hugsa um.“ Þetta er alveg með ólíkindum.

Þetta segir okkur í raun og veru nokkuð um það sem við ræðum oft, þ.e. stöðu þingsins gagnvart framkvæmdarvaldinu. Sett eru lög og reglugerðarheimildin er síðan hjá ráðherra. Þá gerist bara það sem honum dettur í hug. Eftir að lögin eru samþykkt getur Alþingi ekki gripið inn í. Hugsanlega eru margir hv. stjórnarþingmenn ekki sáttir við gjörðir ráðherrans en þeir geta ekki beint málinu í réttan farveg af því að búið er að samþykkja lögin. Og ef við horfum á það, að þessi lög eiga að taka gildi eftir einungis tvo daga og þá á að auglýsa reglugerðina í Lögbirtingarblaðinu, þá hlýtur að vera búið að ákveða hvernig þetta á að vera. Það getur ekki annað verið. Samt er ekki hægt að fá upplýsingar um hana. Þetta eru óskiljanleg vinnubrögð.

Ég fullyrði það, virðulegi forseti, að við höfum nú ekki mikið lært um framkomu framkvæmdarvaldsins gagnvart þinginu, af þessum vinnubrögðum við lagasetningu. Þetta eru eðlilegar og réttlátar spurningar sem er algjörlega furðulegt að hæstv. ráðherra sjái sér ekki fært að svara öðruvísi en með útúrsnúningum eða þar fram eftir götunum.

Nánar um þessa blessuðu svæðaskiptingu. Hún kom til í fyrra, að hluta til út af svokölluðum byggðakvóta. Á síðasta fiskveiðiári var ákveðið að helmingurinn af aflaheimildum til strandveiða skyldi tekinn út úr veiðikvótanum. Ákveðin rök voru þá fyrir því að segja: „Við tökum þetta mikinn byggðakvóta af þessu svæði, sem fer síðan inn á þetta svæði í svæðaskiptingunni.“ Eðlileg rök, þó mönnum sýnist sitt hvað um þetta. Á þetta var bent í umræðunni í fyrra og sú varð líka reyndin. Ef ég nefni bara tvö byggðarlög, Stykkishólm eða Súðavík, þá var byggðakvóti þeirra inni í heildarsvæðaskiptingunni en aflanum var síðan að stærstum eða öllum hluta landað utar en á viðkomandi stöðum. Honum var landað á Rifi eða Ólafsvík eða í Bolungarvík, vegna þess að þar var miklu styttra á miðin og byggðakvótinn því færður til.

Hæstv. ráðherra getur ekki hugsað það öðruvísi, það væri a.m.k. eðlilegast að hugsa það þannig, að ef maður hefur fjögur svæði eða fimm svæði — ég veit ekkert hvað hann ætlar að hafa mörg svæði, honum gæti þess vegna dottið í hug að hafa þrjátíu svæði eða tvö, ég hef bara ekki hugmynd um það — að þá sé aflamagn á svæði áætlað eftir fjölda báta. Ef við tökum t.d. svæði A og þar eru 300 bátar, og svo aftur svæði B þar sem eru 100 bátar, svo ég noti nú einhverjar tölur, þá hlýtur að fara þrisvar sinnum meira magn inn á svæði A heldur en svæði B. Það geta engin rök verið fyrir neinu öðru. Mér er það algjörlega óskiljanlegt ef svo er ekki.

Það ætti því ekki að vera flókið fyrir hæstv. ráðherra að sýna þinginu þá virðingu að svara svona einföldum spurningum við lokaafgreiðslu málsins. Hann er eflaust búinn að semja reglugerðina. Mér finnst þetta hreint með ólíkindum og sýnir enn og aftur hvernig staðið er að lagasetningum á hv. Alþingi.

Það getur vel verið að svæðaskipting hæstv. ráðherra falli þinginu í geð, ég veit ekkert um það. Það er furðulegt að hann geti ekki sagt hvernig hann ætlar að gera þetta og hafi uppi allar þessar hugmyndir, þegar litið er til þess sem gerðist í fyrra. Ég ætla að rifja það upp, það er nauðsynlegt. Menn gátu fært báta sína inn á svæði þar sem þeir áttu ekki heima. Sú varð reyndin í fyrra, menn sem bjuggu á einu svæði færðu báta sína á annað svæði. Þá var komið fullt af félögum í pósthólf út um allt og öll pósthólf á viðkomandi pósthúsum orðin frátekin. Menn færðu sig bara koll af kolli, hvort sem þeir voru á Hellissandi eða Ólafsvík eða Patreksfirði eða Tálknafirði. Pósthólfin kláruðust af því menn færðu lögheimili fyrirtækisins og færðu bátana yfir á það svæði þar sem þeir vildu vera. Þar af leiðandi rugluðu þeir upphaflegu hugsuninni um svæðaskiptinguna. Þetta gefur augaleið.

Ég vil líka taka undir það sem hv. þm. Einar Kristinn Guðfinnsson sagði hér áðan, að eins og þetta er sett upp þá finnst mér eðlilegt að bátar geti komið inn í strandveiðarnar þegar þeim hentar. Ef þeir vilja koma inn 1. júlí eða 1. ágúst eða hvenær sem er, þá geta þeir það. Það er hins vegar mjög óeðlilegt ef bátar geta ekki farið út. Ég vona svo sannarlega að við lendum ekki í því sama og í fyrra, en ég treysti nú engu í þeim efnum. Á einu svæðinu var það t.d. þannig að í ágústmánuði tók aðeins fjóra róðra til að klára aflamagnið þar fyrir þann mánuð meðan á öðrum svæðum náðist ekki einu sinni að klára. Þar gátu bátar róið allan heilan mánuðinn. Nú er reyndar heimilt að færa þarna á milli. Hvað gerist ef þessi staða kemur upp? Væri þá ekki skynsamlegra að leyfa mönnum að fara út úr strandveiðunum t.d. í ágúst eða júlí og segja: „Bíddu, þetta er allt komið í eintóma vitleysu, þetta verður ekki neitt fyrir neinn, ég ætla bara að snúa mér að einhverju öðru“. Þá verður bara hugsanlega meira eftir fyrir hina. Þetta segir sig því alveg sjálft. En því miður er þetta ekki inni.

Síðan er annað sem mig langar að taka upp sem hefur kannski oft lítið verið rætt. Ég hef þó tekið þetta upp í fyrri ræðu. Í fyrra vorum við með þetta í kílóum en nú er búið að breyta þessu og í frumvarpinu er lagt til að hafa þetta í ígildum. Menn hafi þá 650 ígildi. Ég tel sjálfur að það sé mjög skynsamlegt að hafa þetta í ígildum í staðinn fyrir kíló, vegna þess að reynslan sýndi okkur það í fyrra að menn komu með mismikið af ufsa í land af því hann var ekki eins verðmætur. Ég tel að það sé skynsamlegt skref að gera þetta svona. Ufsinn er kannski helmingi verðminni en þorskur, en hann er líka helmingi minna ígildi, þ.e. maður getur veitt helmingi fleiri kíló af ufsa en þorski. Ég tel þetta því mjög skynsamlega breytingu. Ígildin eru 650 en þau eru miðuð við slægðan afla, því ígildi eru alltaf slægð. Ég held að í svona 99% tilfella sé þessum fiski landað óslægðum. Þetta er ekkert voðalega einfalt þó það hljómi þannig og margir viti það, þegar ígildin eru reiknuð. Einhver er með slægt, hann fer yfir í óslægt, og er með svo og svo mikið af ufsa eða þorski. Menn eru oft á tíðum að koma með kannski 10 kíló umfram, eða fimm kíló, átta kíló, hvernig sem það er, sem eru kannski 20 kíló í ígildum núna. Þetta flækir aðeins málið, en þetta er samt skynsamlegt.

Þess vegna hefði ég talið skynsamlegra að við mundum beita svokallaðri 5% reglu í strandveiðunum. Menn mættu fara 5% yfir án þess að fá sektir og bréf og alls konar vesen. Síðan mundi fiskkaupandinn og fiskmarkaðurinn, sem er þá umboðsaðilinnn sem sér um söluna að stórum hluta, en fullt af þessu fer fram í beinum viðskiptum, hann mundi bara leggja það sem væri umfram ígildin beint sem greiðslu í ríkissjóð. Þá þyrftu menn ekki að vera svona hengdir upp á þráð og fá hugsanlega margar sektir út af nokkrum kílóum, þeir hefðu þetta svigrúm. Það færi bara til ríkissjóðs. Þannig að sá sem færi „óvart“ umfram, ef við getum orðað það svo, því þetta er flóknari staða en hin, þá færi það sem umfram væri beint til ríkissjóðs. Þá væri ekki hægt fyrir viðkomandi aðila að hagnast á því. Það segir sig sjálft að enginn mundi leika sér að því að veiða alltaf umfram til þess eins að landa því til ríkissjóðs. Það væri því skynsamlegra að gera þetta með þessum hætti.

Það er líka eitt sem við skulum átta okkur á. Fiskmarkaðirnir eru mjög nákvæmir í vigtun. Ef komið er með 807 kíló, þá vigtar það 807 kíló, eða 650 ígildi eins og í þessu tilfelli. Ef komið er með 655 ígildi, þá er það bara þannig að maður fær bréf og sekt. Ef menn landa oft hjá fiskvinnslunum þá er kannski hægt að laga þetta aðeins til með því að hækka ísprósentuna eða eitthvað slíkt, því þetta eru kannski aðeins örfá kíló. Ef menn skoða landanir hjá bátum sem landa beint í beinum viðskiptum, þá eru menn oft — eða ég rak alla vega ekki augun í annað eins og þetta var í fyrra, ég ætla þó ekki að alhæfa um það — með akkúrat eiginlega kílóið sem þeir máttu landa. Það var aldrei sem ég rakst á kannski fimm til sjö kíló umfram. Það væri mikið einfaldara fyrir alla að láta þetta bara fara beint til ríkissjóðs, losna við allar bréfaskriftirnar og allt þetta pappírsfargan, af því þetta er innbyggt í kerfin hjá fiskmörkuðunum, þ.e. svokallaður VS-afli, eins og heimild er til að gera þegar menn eru bæði í krókaflamarki eða aflamarki. Það hefði verið skynsamlegra.

Ég ítreka það þó að ég tel sjálfur persónulega þessa breytingu mjög skynsamlega. Þarna hafa menn lært af reynslunni og það er bara gott.

Það er annað sem ég er ekki sáttur við, og það kemur reyndar fram í breytingartillögu frá minni hlutanum, að á þessu kvótaári eru þessi 6.000 tonn ekki dregin frá úthlutuðu aflamarki. Þau verða það hins vegar á næsta kvótaári, þ.e. árinu 2010/2011. Ég er mjög ósáttur við þetta. Ég hefði litið þannig á, vegna umræðunnar um heildaraflamarkið hverju sinni, að það hefði hugsanlega náðst meiri sátt um þetta ef menn hefðu haft þessi 6.000 tonn fyrir utan aflamarkið. Ég hefði viljað það og ég mun að sjálfsögðu greiða breytingartillögu minni hlutans atkvæði mitt á morgun, vegna þess að skerðingarnar eru orðnar mjög miklar. Ég vildi bara rifja það upp. Ef til vill verður sama aflamark á næsta ári eins og var á þessu ári, en það er nú kannski ekki útlit fyrir það, við skulum samt vona að það verði niðurstaðan. Fyrstu gögn Hafrannsóknarstofnunar benda til þess að hugsanlega verði skorið niður og við skárum líka niður á þessu ári. Það sem hélt okkur uppi í 150.000 tonnum var það að búið var að bæta við kvótann upp í 160.000 tonn. Það er vegna þess að alltaf eru reiknuð tvö ár inn í viðmiðunina. Þannig að ef Hafrannsóknarstofnun hefur kannski lagt til 140.000 tonn og leggur núna til 150.000 tonn, þá endum við í 145.000 tonnum. Það verður alltaf að deila með tveimur til þess að minnka sveiflujöfnunina. Þannig að þá fáum við skerðingu á þorski. Til viðbótar því mun þessi úthlutun í strandveiðarnar þýða 3,6% skerðingu á bátana sem eru inni í aflamarkinu í dag, krókaflamarkinu eða aflamarkinu, 3,6%, bara þessi eina aðgerð.

Niðurstaðan er þá orðin sú, virðulegi forseti, að þeir sem eru með aflamark í þorski, þeir fá 8,7% skerðingu á aflaheimildir sínar til þess að setja inn í allar þessar sértæku aðgerðir, línuívilnun, byggðakvóta, rækju- og skelbætur og strandveiðar. 8,7% skerðing er orðin mjög mikil skerðing. Hún er nú þegar um 5%, en ef menn eru með aðrar tegundir eins og t.d. karfa, þá verður kannski engin skerðing. Ég hef oft farið yfir það hversu óréttlátt þetta er.

Síðan má velta fyrir sér, ég ætla að enda á því, virðulegur forseti, hvernig við sjáum þetta þróast í framhaldinu. Ég held að það þurfi að koma mjög skýr skilaboð frá Alþingi um það, hvernig menn sjá þetta fyrir sér. Við vorum með 4.000 tonn á síðasta kvótaári, sem var reyndar miklu styttri tími. Nú förum við upp í 6.000 tonn og menn trúa því að á næsta ári fari þetta bara upp í 10.000 tonn, síðan í 12.000 tonn og svo koll af kolli. Þess vegna eru menn í dag, margir hverjir, að fjárfesta mjög grimmt í þessu á dýran hátt. Þeir hafa trú á því að þetta muni þróast eins og reynslan hefur sýnt. Þess vegna er mjög mikilvægt fyrir hv. Alþingi að senda frá sér skýr skilaboð um það hvernig menn sjá fyrir sér að þetta þróist. Ef menn lenda í því núna að þessi 6.000 tonn munu ekki duga og þetta endist á sama hátt og í fyrra, verður þá aflamagnið minnkað, á dag hugsanlega? Eða verður sett svipað aflamark?

Virðulegi forseti. Ég ætla hins vegar að enda hér á jákvæðum nótum og segja: Sú breyting sem meiri hluti sjávarútvegs- og landbúnaðarnefndar leggur til um að fjölga dögunum, þ.e. föstudag og laugardag og taka sunnudaga til viðbótar, tel ég til mikilla bóta við þessa breytingu. Ég mun styðja hana.