138. löggjafarþing — 115. fundur,  29. apr. 2010.

veiðieftirlitsgjald.

371. mál
[18:36]
Horfa

Frsm. minni hluta sjútv.- og landbn. (Einar K. Guðfinnsson) (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég er allur af vilja gerður að svara hv. þingmanni, en ég er hræddur um að nú sé farið í geitarhús að leita ullar því þetta er álit fjármálaráðuneytisins og ég get ómögulega svarað fyrir það. Ég get hins vegar ímyndað mér að fjármálaráðuneytið sé að vísa til þess að hér sé búinn til nýr tekjustofn sem er ekki í samræmi við önnur lög varðandi tekjustofna hafnanna en að öðru leyti ætla ég ekki setja fram neinar tilgátur um þetta.

Það sem kom mér hins vegar á óvart, þegar ég las álit efnahags- og skattanefndar, var einmitt að fjármálaráðuneytið, sem hefur með þennan málaflokk að gera, skyldi gera svona alvarlegar athugasemdir. Ég hefði getað ímyndað mér að kallað væri eftir viðhorfum fjármálaráðuneytisins áður en svona mál væri lagt fram, því hér er um að ræða skattamál. Það hefði ég talið mjög eðlilegt. Síðan væri það á valdi hæstv. sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra, og þá auðvitað að fengnu samþykki ríkisstjórnarinnar, hvort málið yrði lagt fram.

Að öðru leyti vil ég segja að það er út af fyrir sig alveg rétt að höfnunum veitir örugglega ekkert af þessum tekjum. Ég get hins vegar ímyndað mér að ýmsar aðrar hafnir, og stærri hafnir, gætu alveg hugsað sér að fá meiri tekjur. Margar þeirra eru reknar með tapi eins og við vitum. Hér er um að ræða dálítið sérkennilega aðferð eins og ég vakti athygli á. Í gildi eru lög sem kveða á um að ríkið styrki ekki rekstur, það eigi fyrst og fremst að styrkja fjárfestingar. Hér er hins vegar búinn til sérstakur sjálfstæður tekjuskattur, nýr skattur sem er ætlaður til þess arna. Að öðru leyti eru tekjustofnarnir sem hafnirnar hafa til rekstrar, aflagjöld og þjónustugjöld af öðrum toga.