138. löggjafarþing — 116. fundur,  30. apr. 2010.

reglugerð um strandveiðar.

[13:21]
Horfa

Vigdís Hauksdóttir (F):

Virðulegi forseti. Ég er enn þá meira hissa núna en áðan þegar ég kom hér upp í þennan ræðustól. Þingmenn verða að vita hvaða ábyrgð þeir bera í þessum sal. Þingmenn eru þjóðkjörnir og hér ber okkur að vernda og virða þær reglur sem við störfum eftir og setja lög sem við ætlumst til að þegnar landsins fari eftir og þingmenn líka. Ég var að vísa í það að þingmenn hafa komið fram og sagt að hér sé um mjög opið ákvæði að ræða og það sé í hendi hæstv. sjávarútvegsráðherra að framfylgja þeim reglum. Ég minni aftur á að opin lög sem gefa heimild til reglugerðarákvæðis hafa farið fyrir umboðsmann Alþingis og þingmenn eru greinilega hræddir um að það sé að gerast. Ég tek því undir með hv. þm. Pétri Blöndal um að hér verði gert klukkustundarhlé þar sem hæstv. sjávarútvegsráðherra getur komið með drög að þeirri reglugerð sem liggur fyrir svo þingmenn séu (Forseti hringir.) vissir um að hér sé verið að samþykkja lög sem standast alla vega (Forseti hringir.) reglur réttarríkisins. (Forseti hringir.)