138. löggjafarþing — 116. fundur,  30. apr. 2010.

stjórn fiskveiða.

370. mál
[13:42]
Horfa

Sigurður Ingi Jóhannsson (F):

Virðulegi forseti. Ég hef nú komið því til skila að við framsóknarmenn getum stutt strandveiðar á ákveðinn hátt en við teljum að frumvarpið eins og það liggur fyrir í dag sé ekki aðgengilegt til þess að styðja það. Því munum við sitja hjá. Með því að fella ákvæðið áðan um aukninguna á aflaheimildum á næsta ári held ég að sú sátt sem ellegar hefði getað náðst hér í þingsal hafi verið rofin. Það er svolítið merkilegt til þess að hugsa að ég held að í hugum mjög margra þingmanna sé meiri stuðningur við málið en kom fram við atkvæðagreiðsluna áðan. Ég hef því miður grun um að ástæðan fyrir því að það var fellt sé sú að það kom frá minni hlutanum.