138. löggjafarþing — 117. fundur,  30. apr. 2010.

grunngerð landupplýsinga.

549. mál
[16:56]
Horfa

umhverfisráðherra (Svandís Svavarsdóttir) (Vg):

Virðulegur forseti. Ég mæli fyrir frumvarpi til laga um grunngerð landupplýsinga en frumvarpið tengist aðild Íslands að Evrópska efnahagssvæðinu.

Evrópusambandið samþykkti í maí 2007 tilskipun 2007/2/EB um notkun og miðlun landupplýsinga sem hefur verið nefnd INSPIRE. Tilskipunin grundvallast á svonefndri grunngerð fyrir landupplýsingar sem gert er ráð fyrir að aðildarríki komi á fót hjá sér. Er slík grunngerð landupplýsinga mikilvægur þáttur til að virkja almenning sem og grundvöllur að skilvirkari stjórnsýslu, svo sem við ákvarðanatöku og stefnumörkun. Grunngerð landupplýsinga hefur ekki verið byggð upp formlega hér á landi þó svo að mikil vakning hafi orðið í málaflokknum á undanförnum árum og margt áunnist sem kemur til með að nýtast við að innleiða ákvæði INSPIRE-tilskipunarinnar hér á landi.

Markmið tilskipunarinnar er fyrst og fremst að samræma og samnýta opinberar landupplýsingar og þá einna helst í þágu umhverfismála. Þannig verður hægt að skiptast á landupplýsingum, innan lands sem utan, en meginforsenda þess er að gögnin séu samræmd og samnýtanleg. Þá eru settar reglur með tilskipuninni um hvernig skipulag, upplýsingamiðlun og aðgengi að landupplýsingum skuli vera háttað. Þó svo að INSPIRE-tilskipunin snúi fyrst og fremst að umhverfismálum er það markmið laganna til framtíðar að sem flestar landupplýsingar verði hluti af hinni nýju grunngerð landupplýsinga.

Markmið frumvarpsins er að tryggja að byggð verði upp grunngerð landupplýsinga á vegum stjórnvalda og henni viðhaldið í þeim tilgangi að tryggja aðgengi yfirvalda og almennings að landupplýsingum á Íslandi. Með þessum hætti á að tryggja annars vegar að þeirra grunngagna sé aflað sem samfélagið þarf á að halda og hins vegar að þessi grunngögn verði aðgengileg og öllum opin m.a. í þeim tilgangi að koma í veg fyrir tvíverknað og skörun í öflun opinberra gagna.

Helsta nýmæli frumvarpsins er svonefnd landupplýsingagátt sem Landmælingum er falið að starfrækja. Í gegnum þessa landupplýsingagátt á að veita aðgengi að landupplýsingum og upplýsingum um þær og skal hún vera opin og aðgengileg öllum. Meðal þeirrar þjónustu sem verður aðgengileg í gegnum gáttina er lýsigagnaþjónusta sem gerir það kleift að leita að landupplýsingum og þjónustu vegna þeirra. Þá verður um að ræða skoðunarþjónustu sem gerir það kleift að skoða viðkomandi gögn sem mynd á skjá. Einnig verður hægt að hala niður gögnum í gegnum þjónustuna, að hluta eða öllu leyti.

Samkvæmt frumvarpinu bera þau stjórnvöld, sem hafa landupplýsingar í umsjá sinni, þá frumskyldu að sjá til þess að gögn verði í samræmi við kröfur þær sem gerðar verða á grundvelli laganna og reglugerðar með stoð í þeim. Einnig ber stjórnvöldum að gera landupplýsingar sínar aðgengilegar í gegnum áðurnefnda landupplýsingagátt. Þá er gert ráð fyrir því að aðrir en stjórnvöld, þ.e. einkaaðilar, geti tengt landupplýsingar sínar við landupplýsingagáttina.

Landmælingum Íslands er ætlað veigamikið hlutverk við framkvæmd laganna, m.a. með því að sjá alfarið um rekstur landupplýsingagáttarinnar. Þá skal stofnunin einnig vera stjórnvöldum til ráðgjafar til að skyldum samkvæmt lögunum sé fullnægt.

Gerð er tillaga um að sett verði á fót samræmingarnefnd vegna landupplýsinga. Er þetta nýmæli og ekki gerð krafa um slíka nefnd samkvæmt INSPIRE-tilskipuninni. Verður hlutverk nefndarinnar að móta stefnu í landupplýsingamálum sem og að vinna aðgerðaráætlun fyrir stjórnvöld við að innleiða grunngerð landupplýsinga á Íslandi.

Virðulegur forseti. Ég hef hér rakið meginefni frumvarpsins og legg til að því verði að lokinni 1. umr. vísað til hv. umhverfisnefndar.