138. löggjafarþing — 118. fundur,  6. maí 2010.

barnaverndarlög.

557. mál
[12:35]
Horfa

Pétur H. Blöndal (S):

Frú forseti. Hér ræðum við um frumvarp til laga um breytingar á barnaverndarlögum. Barnaverndarlög eru afskaplega mikilvæg mál og mér þykir miður hvað umræðan ætlar að vera lítil. Ég hef reynt að setja mig inn í frumvarpið, ég verð að viðurkenna að ég er ekki búinn að lesa það allt, en það er mjög margt áhugavert sem kemur þar fram. Menn reyna að bregðast við því sem gerðist í Breiðavík og annars staðar og það sem kom fram hjá hæstv. ráðherra um sérstaka eftirlitsstofnun, ég vil að nefndin taki þetta upp sem ábendingu frá ráðherra og vinni sjálf að því að semja frumvarp að eftirlitsstofnun, að það komi einhver aðili að þessu sem ekki er tengdur öllu barnaverndarkerfinu. Þar er ákveðin dulúð og leynd sem kjörnir fulltrúar í hv. félagsmálanefnd gætu haft aðra skoðun á heldur en þeir sem starfa í sjálfu kerfinu.

Ég sé ekki neins staðar í frumvarpinu rætt um hina gífurlegu ógn, fíkniefni og fíkniefnaneyslu foreldranna, sem steðjar að börnum þessa lands. Það er þekkt að á Íslandi höfum við lengi haft neyslu, áfengisneyslu og fyllibyttur. Íslendingar hafa kannast við það í 100 ár og öll þau gífurlegu vandræði og fátækt sem af því leiðir, því þar er virkileg fátækt, jafnvel þó viðkomandi sé með miklar tekjur. Það er ekki hægt að kaupa mjólk af því brennivínið er svo dýrt, eins og einhver sagði.

Fíkniefnin bjóða upp á alveg nýtt og óþekkt vandamál. Það er spurningin sem barnaverndaryfirvöld og aðrir standa frammi fyrir. Hvenær er komið nóg? Hvenær er barnið búið að líða nógu mikið fyrir fíknina, ruglið, sinnuleysið og allt sem fylgir þessu, brotin og svikin loforð alla daga, tortryggni o.s.frv. og óttann við helgar og jól, frú forseti? Hvenær er komið nóg? Hvenær segir barnaverndarnefnd: „Það er betra fyrir barnið að vera tekið frá foreldrunum, heldur en að vera ekki tekið frá foreldrunum“? Þetta er alls ekki einfalt mál, barnið mundi yfirleitt alltaf velja að vera hjá foreldrum sínum þrátt fyrir allar hörmungarnar.

Þetta þarf að ræða, frú forseti. Við getum ekki sagt ja, það er engin neysla á Íslandi, því það er neysla á Íslandi. Við getum ekki sagt að þessi neysla snerti ekki börn, því hún snertir börn. Það er fjöldi barna í umsjá foreldra sem eru í neyslu. Foreldra sem eru sjúkir, viljalausir og stöðugt að svíkja barn sitt sem og aðra. Þetta er mjög alvarlegt mál og ég vil að nefndin fari alveg sérstaklega í gegnum vandamálin, sem eru stóraukin fíkniefnaneysla á heimilum landsins og allt sem að því hlýst. Ég geri mér alveg grein fyrir því að barnaverndarstarfsfólk er engan veginn í auðveldri stöðu að taka á svona málum.

Við þurfum einhvern veginn að brjóta þann huliðshjúp sem er yfir þessum málum. Brjótast út úr þessari slæmu stöðu svo að foreldrar og aðrir aðstandendur geti snúið sér eitthvert til að staða barnanna verði bætt, hvort sem það er gert með aðstoð við foreldra sem er gert mjög víða og þar er unnið mjög gott starf, ég ætla ekki gagnrýna það. Það þarf að vera meiri athygli á barnaverndarmálum og ég skora á hv. nefnd að ræða þetta mál í hörgul og mun meira því umræðan hérna á Alþingi gefur til kynna að áhugaleysi sé um barnaverndarmál.