138. löggjafarþing — 118. fundur,  6. maí 2010.

umferðarlög.

553. mál
[14:59]
Horfa

Árni Johnsen (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Það er hættulegt og óþarfi að tala um réttindi ökuprófs sem morðvopn. Það eru réttindi til þess að lifa lífinu, nýta þá tækni sem er til, nýta þær aðstæður sem til eru og það léttir róðurinn í mörgu að hafa þannig tækjabúnað. Nákvæmlega eins og nú þykir sjálfsagt að nota farsíma af því að það léttir róðurinn þó að það geti verið hættulegt fyrir einhverjar sellur í heilanum. En það hefur ekki verið sannað og þess vegna sleppum við enn þá þangað til Evrópubandalagið setur reglur um það.

Fyrir þessu verður að vera almennt, skynsamlegt sjónarmið út frá brjóstviti venjulegs fólks. Besta dæmið er þegar verið að setja ungu fólki sem býr afskekkt stólinn fyrir dyrnar. Það þarf bíl til þess að hafa tengingu við næsta þéttbýli. Það er bara frekja og yfirgangur ef þingmaður leyfir sér að segja að þetta fólk þurfi ekkert bíl. (Gripið fram í.) Hver á að velja lífi þess farveg nema það sjálft? (Gripið fram í.) Það getur þurft bíl og það á ekki að skerða þessi réttindi frekar en orðið er. Það þarf að gæta þess að það er ofstýring og forsjárhyggja af verstu gerð (Gripið fram í.) að segja einfaldlega: „Heyrðu, þú þarft þetta ekkert.“

Látum fólkið meta hlutina sjálft, komast að því. Það býr við ákveðnar skyldur og kröfur og það verður að mæta þeim en ekki (Forseti hringir.) ganga of langt.