138. löggjafarþing — 118. fundur,  6. maí 2010.

heimild til samninga um gagnaver í Reykjanesbæ.

320. mál
[17:35]
Horfa

Frsm. meiri hluta iðnn. (Skúli Helgason) (Sf) (andsvar):

Frú forseti. Ég þakka fyrir umræðuna sem hér á sér stað og sérstaklega hreinskilna ræðu hv. þm. Gunnars Braga Sveinssonar. Hann lýsti því þannig að flestir ef ekki allir nefndarmenn í iðnaðarnefnd hefðu verið með óbragð í munninum við afgreiðslu þessa máls og ég held að það sé að mörgu leyti rétt lýsing. Við stóðum frammi fyrir þremur kostum þar sem tveir voru tiltölulega einfaldir. Í fyrsta lagi að samþykkja frumvarpið óbreytt og láta það ganga aftur til þings án þess að grípa til neinna þeirra úrræða sem kæmu til móts við þessar siðferðilegu spurningar sem þjóðin spyr sig og við sjálf. Í öðru lagi því að hafna málinu á grundvelli þessa siðferðilega vanda og í þriðja lagi þeirri leið sem við völdum, sem er að freista þess að finna á þessu lausn sem kemur að einhverju leyti til móts við báða fyrri kostina.

Það er rétt sem hv. þm. Þráinn Bertelsson segir, annaðhvort er maður hrein mey eða ekki. Í þessu máli er þingheimur ekki hrein mey, ég viðurkenni það fúslega. Ég er líka hugsi yfir því að hvorki Alþingi né stjórnvöld hafa leyst það verkefni að móta almennar reglur um samskipti sín við þessa útrásarvíkinga og ábyrgðaraðila hrunsins. Við vitum að bankarnir fara í gegnum skuldameðferð fyrirtækja og þessir sömu einstaklingar og þar báru mikla ábyrgð fá fyrirtækin aftur í sínar hendur. Við höfum staðið álengdar og horft á þetta gerast og ég tel að það sé ámælisvert. Ég fann í mínum beinum að mér fannst ekki boðlegt að iðnaðarnefnd freistaði þess ekki að finna lausnir sem a.m.k. kæmu til móts við þessi sjónarmið að einhverju leyti, þó ekki að fullu því ég játa að mér fannst mikill ábyrgðarhluti að hafna verkefninu eingöngu á þeim forsendum að þessi tiltekni aðili væri þarna inni. Þessi aðili (Forseti hringir.) á hlut í ýmsum fyrirtækjum í samfélagi okkar, CCP, Actavis og fleirum. Ef við ætlum að vera samkvæm sjálfum okkur eigum við að skora hann á hólm alls staðar (Forseti hringir.) en ekki bara í þessu verkefni.