138. löggjafarþing — 118. fundur,  6. maí 2010.

heimild til samninga um gagnaver í Reykjanesbæ.

320. mál
[17:49]
Horfa

Þráinn Bertelsson (U) (andsvar):

Virðulegur forseti. Það er mjög stutt á milli skoðana okkar í málinu, milli mín og hv. þm. Jónínu Rósar Guðmundsdóttur. Mig langar til að segja að heiðarleiki er eftirsóknarverður og öll siðfræði byggir á því að reyna að nálgast heiðarleikann. Enginn maður er fullkominn en við verðum að gera okkar besta. Ég auglýsi eftir því hvað ríkisstjórnin ætlar að gera. Hvaða stefnu hefur hún yfirleitt varðandi þau siðferðilegu vandamál sem við höfum átt við að glíma að undanförnu? Þau eru fyrirsjáanleg því þessi tiltekni maður, Björgólfur Thor Björgólfsson, er ekki eini útrásarkappinn sem við sem þjóð þurfum að eiga einhvers konar samskipti eða viðskipti við í framtíðinni. Ég auglýsi eftir því: Hvað ætlar ríkisstjórnin að gera í þessu máli og hvað finnst hv. þm. Jónínu Rós Guðmundsdóttur að ríkisstjórnin ætti að gera?