138. löggjafarþing — 119. fundur,  7. maí 2010.

forgangsmál ríkisstjórnarinnar í umhverfismálum.

[14:00]
Horfa

Anna Margrét Guðjónsdóttir (Sf):

Frú forseti. Það er vel til fundið hjá hv. þm. Eygló Harðardóttur að óska eftir utandagskrárumræðu um umhverfismál enda vill sá málaflokkur gjarnan gleymast í þeirri orrahríð sem við stöndum í þessi missirin. Mitt í þessum átökum þurfum við þó að halda sjó og taka kúrsinn, byggja samfélag og atvinnulíf í sátt við umhverfið þar sem við bæði nýtum og njótum.

Í síðustu viku, og þarsíðustu reyndar líka, voru lagðar fram á Alþingi tvær viðamiklar áætlanir, samgönguáætlun og byggðaáætlun, og við höfum aðeins rætt um samgönguáætlunina fyrr í dag. Í báðum þessum áætlunum er áhersla lögð á umhverfisþáttinn og er sérstaklega ánægjulegt að sjá að samgönguáætlunin hefur breyst frá því að vera tæknileg og mannvirkjafókuseruð í það að leggja áherslu á umhverfi, skipulag og manneskjulegt samfélag.

Ég geri ráð fyrir að í 12 ára samgönguáætlun sem samgönguráðherra mun leggja fram á þinginu næsta haust verði enn frekari áhersla á umhverfismál enda er þar um stefnumótandi plagg að ræða. Í byggðaáætluninni þar sem m.a. er að finna drög að atvinnustefnu er einnig lögð áhersla á uppbyggingu atvinnulífs sem byggir á skynsamlegri nýtingu náttúruauðlinda okkar. Skipulagsmálin eru e.t.v. besta stjórntæki stjórnvalda til að hafa áhrif á umhverfismál og því ríður mikið á að endurskoðun skipulagslaga takist sem best.

Frú forseti. Í áliti framkvæmdastjórnar Evrópusambandsins á aðildarumsókn Íslands að Evrópusambandinu er m.a. að finna umsögn um stöðu umhverfismála á Íslandi og fáum við þar ekkert sérstaklega góða einkunn, en þó ágæta. Evrópusambandið stendur einna fremst í heimi á þessu sviði og það hefur verið farsælt fyrir okkur Íslendinga að fylgja þeim eftir enda umtalsverður hluti regluverks Evrópusambandsins tekinn upp í EES-samninginn og gildir því hér á landi. Má þar nefna tilskipanir um fráveitu, meðferð sorps og heilbrigðiseftirlit svo eitthvað sé nefnt.

Í framangreindu áliti er sérstaklega vakin athygli á því að við verjum afar litlum fjármunum til umhverfismála og er gerð athugasemd við það. Það er líka þvert á það sem hv. þm. (Forseti hringir.) Jón Gunnarsson nefndi, það er sagt að Íslendingar þurfi að taka sig verulega á í að vernda og skipuleggja þjóðgarða og verndunarsvæði almennt.